Sérfræðingur hefur orðið !

Mér var að berast 2. tbl. Ljóssins, 1. árg. 2007.   

Þar las ég stutta grein krabbameinslæknisins míns, Sigurðar Böðvarssonar.  Ég ætla að leyfa mér að birta greinina hans hér án sérstaks leyfis því ég veit að hann mundi auðfúslega verða við þeirri bón minni.  Mér finnst þessi stutta grein segja svo margt bæði mannlegt og faglegt sem þarf að koma fyrir almennings sjónir.  Án frekari útlistana læt ég hann segja hér frá:

Endurhæfing krabbameinssjúkra

Eins og við öll þekkjum þá geta mismunandi krabbamein valdið mismunandi einkennum.  Einkennin ráðast þá gjarnan af staðsetningu meinsins og þá hvernig það truflar starfsemi viðkomandi líffæris eða líffæra.  Einnig er algengt að krabbameinsfrumur gefi frá sér tiltekin efni sem berast út í blóðið og valda öðrum og almennari einkennum.  Þessum einkennum, oft óljósum í fyrstu, hefur sjúklingurinn jafnvel fundið fyrir vikum eða mánuðum fyrir greiningu krabbameinsins.

Algengustu einkenni af þessum toga eru almennur slappleiki, þreyta, lystarleysi og jafnvel þyngdartap.  Til að bæta gráu ofan á svart eru flest þessara einkenna jafnframt algengur fylgikvilli bæði krabbameinslyfja og geislameðferðar sem margir krabbameinssjúklingar þurfa að ganga í gegnum tímabundið, hvort sem tilgangur slíkrar meðferðar er að lækna sjúkdóminn eða halda honum niðri.  Það er hér sem almenn endurhæfing í víðast skilningi þess orðs kemur við sögu.

Margir þættir

Í raun og veru er tilgangur endurhæfingar krabbameinssjúkra að hámarka líkamlega, félagslega og andlega getu þeirra og þar með lífsgæði og sjálfstæði.  Slík endurhæfing gagnast mjög flestum sjúklingum með krabbamein óháð tegund krabbameinsins eða útbreiðslu.  Hún getur ef vel tekst til náð til margra ólíkra þátta og mætti þar helst nefna:

  • Minni verkir, betri líðan
  • Bætt matarlyst og næringarástand
  • Bætt líkamleg færni og geta
  • Aðstoð við að hætta reykingum
  • Minni streita, kvíði og depurð
  • Aukin skilningur fjölskyldu á orsök, afleiðingu og meðferð ýmissa einkenna
  • Bættur svefn
  • Færri sjúkrahúslegur (þetta atriði fær stjórnmálamennina alltaf til að sperra eyrun)
  • Aukið sjálfstæði heima fyrir, sjúklingur minna háður aðstoð annarra fjölskyldumeðlima eða heilbrigðisstarfsmanna.

Margar starfsstéttir

Í endurhæfingarferlinu öllu koma yfirleitt margar starfsstéttir við sögu, allt eftir þörfum hvers sjúklings.  Mikilvægt er að samnýta krafta þessa góða fólks og jafnframt að það sé einhver einn aðili sem hafi heildaryfirsýn og samhæfi starfsemina.  Yfirleitt er það læknirinn sem fer með þetta hlutverk.  Aðrir, og reyndar ekki síður mikilvægir aðilar, koma jafnframt að meðferð hvers og eins eftir því sem við á hverju sinni.  Eins og við þekkjum eru þetta yfirleitt sérhæfðir starfsmenn, svo sem sjúkra- og iðjuþjálfarar, næringarfræðingar, hjúkrunarfræðingar, prestar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og fleiri.  Þegar ég leiði hugann að þeirri stafsemi sem fram fer í Ljósinu í Neskirkju, og ég hef sjálfur orðið vitni að í þau skipti sem ég hef rekið þar inn nefið, þá hef ég líklega ekki ennþá minnst á einn mikilvægasta þátt endurhæfingar.  Hann felst í þeim gömlu sannindum að "maður er manns gaman".  Það er gott og hollt að fara út og hitta annað fólk, þótt ekki sé til annars en að spjalla, skiptast á reynslusögum og hlæja.

Sigurður Böðvarsson er sérfræðingur í lyf- og krabbameinslækningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll kæri vinur....Já þessi grein hjá honum Sigurði er alveg snilldarlega skrifuð og ég er alveg sammála því að endurhæfingin er mjög mikilvæg hjá okkur sem greinumst með krabbann og ég segi fyrir mig að bæði ljósið og endurhæfing landsspítalans í fossvogi hefur nýst mér gríðarlega vel og lyft mér upp í hæðir þegar svartnættið hellist yfir mig.Vona að þú hafir það sem best Ármann minn og vonast til að fara að sjá þig sem fyrst.Þín vinkona Björk

Björk töffari (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband