Guð gefi ykkur bjartar og góðar tíðir

Mikið er vont að ferðast í hyldjúpum dal, í kolniðamyrkri þar sem enginn máni bregður ljóskeilu á hvítfreðna jörð né bjartar sindrandi stjörnur, mislangt útí himingeimnum skarta alheimshásali skapara vors.

Hverskonar orðagjálfur er þetta, kann einhver að spyrja?

Spyr sá sem ekki veit!

Ég hef lært það að þrauka en man það bara svo allt of sjaldan þegar sálartetrið dettur í svona glufur og þarf svo að leggja sig allt fram um að komast uppúr feninu í dalbotninum.  "Klýfa svo skriður, skríða kletta, velta niður og vera að detta o.s.frv.", eins og "skáldið" kvað.

Sagt er að sá sem aldrei þjáist neitt kunni heldur ekki að gleðjast til fullnustu.  Ég er kominn upp í miðja brekku nú þegar ég kemst að því að minn ágæti "sáli" er að koma heim til sín úr krabbameinsaðgerð.  Guð lækni hann og græði sem fyrst, því það eru svo margir sem þurfa á svona manni að halda.

Hann var svo elskulegur að vísa mér á annan starfsbróður sem reyndist nú vera minn upphaflegi "sáli" nýkominn heim með aukna menntun frá útlöndum.  Ég hef góða reynslu af þeim ágæta manni og bind miklar vonir við aukna kunnáttu hans, mér og öðrum, svipað ásigkomnum til betra lífs og heilbrigðis.

Senn kemur Þorrinn, það virðist orðin lenska í þessu landi að þjófstarta öllu, svosem eins og Þorranum, sprengideginum og bolludeginum og þannig mætti margt fleira upp telja.  Þessi flýtir allur er eins og að pissa í skóna sína.  Einn fer á undan af stað og ætlar að selja miklu meira en allir hinir en sjaldnast líður á löngu þar til allir eru farnir að gera eins.  Hvað varð svo um gróðann.  Sumir fengu eftirvinnu eða næturvinnu en athuguðu ekki að helmingurinn af laununum fara beint í skattinn svo hægt verði að koma Sundabraut í jarðgöng.  Svo þarf að hvíla lúin bein eftir törnina til þess að geta farið út að eyða því litla sem útaf stendur.

Mikið held ég að það hljóti að vera leiðinlegt að lesa svona bölsýni og óræðar setningar.  Vonandi fyrirgefið þið mér sem þekkið mig, því ég held að karlinn sé þrátt fyrir allt á uppleið með hækkandi sól og blómum í haga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Soll-ann

Elsku kallinn minn þetta er ekki gott að heyra en þú ættir að prufa ljósið sem er sagt að virki svipað og sólin, þekki eina sem á svoleiðis og hún segir að það sé hreint kraftaverk hvað það gerir.

Komdu svo bráðum í kjallarann á Langholtsveginum lofa kossum og miklu knúsi.

Soll-ann, 18.1.2008 kl. 19:43

2 Smámynd: Guðrún Árnadóttir

þú ert góður penni Ármann svo skrifin þín er ekki leiðinlegt að lesa. Það er hinsvegar alltaf erfitt þegar þunglyndið nær tökum á okkur.  Þú ert nú seigari en margur svo ég efast ekki um að með hækkandi sól lyftist lundin og húmoristinn Ármann brjótist fram um skugganum.

Annars ætlaði ég að þakka fyrir innlitið á mína síðu og samþykki á bloggvinátttu en jafnframt segja þér frá því hvað við erum að bardúsa hérna í DK.  Víkingur starfar hér sem smiður en er aðallega í að leggja parket - hefur nóg að gera og ekki veitir af þar sem ég er sest á skólabekk. Ég er í kandídatsnámi við DPU í Pædagigisk Sociologi og líkar mjög vel. Framundan eru því nokkur ár hérna í landi lige glaðra Dana og þú kíkir nú endilega á okkur ef þú átt leið hér um.

Kær kveðja,

Guðrún Árna.

Guðrún Árnadóttir, 19.1.2008 kl. 16:36

3 identicon

sæll elsku Ármann minn það er nú alltaf gaman að lesa það sem þú skrifar,en vonandi fer að birta í sálartetrinu þínu.Gangi þér allt í haginn, hugsa til þín með sól í hjarta bestu kveðjur Inga Finnbogad.

Ingileif Finnbogadóttir (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 10:28

4 identicon

Elsku blessaður karlinn. Leitt að heyra að þú sért ofan í holunni ógurlegu. Nú þýðir ekkert annað að spýta í lófana karlinn minn, því það fer að líða að því að sá fyrir blessuðum stjúpunum. Það þýðir ekkert væl þegar sá gauragangur allur byrjar. Þjófastarta hvað........ég ég var að enda við að gúffa í mig hrútspungum, sviðakjamma með rófustöppu og hákarli......þú hittir naglann á höfuðið með þjófstartið. Ég gat bara ekki staðist mátið þegar ég sá allt gúmmulaðið í Nóatúni.

Heyrði að sólin sé farin að skína á þá þarna fyrir vestan, þ.e. í Bolungarvík, pældu í því ef sólargarmurinn myndi nú alveg hverfa hérna Í Firðinum. það væri nú ljóta ansk,. myrkrið.! Sjáumst í stuði - með guði! kv. Bebba

Berglind (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 21:04

5 Smámynd: Ármann Eiríksson

Elsku Solla, Guðrún, Ingileif og Bebba!

Takk fyrir velvild ykkar og gæsku í minn garð.   Merkilegt að enginn karl þorir að viðurkenna né tjá sig um svona líðan sem ég veit, að er sko að hrjá miklu fleiri en mig.  Menn á mínum aldri fara með depurð sína og þunglyndi í algjörar felur, þyrðu ekki að viðurkenna það fyrir nokkrum manni og stundum leita þeir sem illa eru settir ekki einu sinni læknis vegna svona "ræfildóms".  Strákar voru aldir upp í gamladaga með þeim hætti, að þeir ættu að vera sterkir og ekki fella tár því það væri bara aumingjagangur.  Hertu þig strákur var gjarnan viðkvæðið, láttu ekki eins og "móðursjúk kerling".  Ég fór út í góðan göngutúr í dag, velskóaður með mannbrodda undir sólunum og hlýja yfirhöfn og eyrnaband.  Mikið lifandis var þetta dásamleg, í drifhvítri mjöllinni og sólskinið var bókstaflega tvöfalt með endurkasti frá mjöllinni.  Ég gerði mér góða grein fyrir því hvað ljósið er dýrmætt og nærandi fyrir sálina og það að þramma á illfærum göngustígum sem sennilega hafa verið ruddir einhvertímann í byrjun vikunnar sem er á enda runnin en það hefur sko snjóað heilmikið síðan.  Þessi gönguferð sem í sjálfu sér var hvorki löng né neitt sérstakt afrek og þó, ég hugsa að þrefalda megi lengdina miðað við færið sem maður skálmaði í.  Alla vega náði ég að svitna vel og fá óhemju birtu í sálartetrið og er bara held ég við miklu betri líðan að kveldi sunnudags.  Manni leggst jú alltaf eitthvað til frá þeim sem öllu stjórnar - Þökk sé því.

Ármann Eiríksson, 20.1.2008 kl. 22:41

6 identicon

Sendi þér orku-og gleðistrauma elsku Ármann minn og vona að sólin fari að skína skært í þinni sál.Sammála *Sollunni,ljósið okkar gerir kraftaverk,bara að drífa sig af stað.Kærleikskveðjur til ykkar hjóna

Björk töffari (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 08:21

7 identicon

Kæri Ármann, gangi þér allt í haginn. Kærleiks- og baráttukveðjur frá Lindu

Linda Björk Loftsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 10:37

8 identicon

Elsku Ármann vinurinn kæri. Hvað er að heyra, er einhver drungi yfir þér karlinn minn. Þá er bara að telja í lag og svo allir klárir... Örn og Kórinn þurfa að kalla í gleðskap.   Tilefnið getur verið hækkandi sól og veturinn verður ekki við völd mikið lengur. Ég er til í gleðskap, alltaf þar sem er sönguir...

Nóg um það. Þú verður Ármann minn að muna og aldrei gleyma... að það er einungis eitt( 1 ) eintak af þér, svo farðu vel með sálartetrið og heilsuna þú mátt ekki klikka á innkomunni.

Kærleiksríkar kveðjur til þín elsku besti vinur og söngfugl. Magga Jóns (bassa Sigurðssonar) 

Margrét Rannveig Jónsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 22:42

9 identicon

Blessaður og sæll Ármann.                                                                                                                                                    Það er langt síðan ég hef kíkt á ykkur Sollu mína en dásamlega gaman að fylgjast með ykkur hér, og ég er svo sannarlega sammála skrifum hér að ofan að þú ert frábær penni og rosalega gaman að lesa færslurnar þínar en auðvitað ekki gaman að lesa um vanlíðan fólks en mér heyrist þetta nú allt horft til betri vegar hjá þér og ég segi eins og ég sagði áður ég dáist að skrifum þínum hversu einlægur og opin þú ert um allt hvort sem það er gott eða vont og ekki gæti ég verið meira sammála þér um að fleiri karlmenn mættu opna hug sinn og hjarta en þeim hefur því miður svo mörgum verið kennt að vera sannir "karlmenn" En allavega Guð geymi þig og þína, sjáumst vonandi sem fyrst í yndislegu kirkjunni okkar   KNÚS

Vala (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 08:41

10 identicon

Þú þarft að fara í Alpana elsku vinur. Var að koma þaðan með henni Bessý minni. Þvílík fegurð, þvílíkt landslag, snjór og birta. Ég hélt af barnslegri einlægni að við Íslendingar ættum einkarétt á náttúru. Því er nú öðru nær. Mæli líka með að fara bara eitthvert burt í sólina. Leiga íbúð á suðurstönd Spánar í minnst tvo mánuði eða eitthvað. Kostar ekki mikið. Og það er líka svo miklu ódýrara að framfleyta sér þar. Maður kemur út í gróða. Það er hreinlega glæpur að hánga á þessu skeri á þessum tíma.....Bestu kveðjur

málarinn (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 19:00

11 identicon

Sæll Ármann !

Það var gaman að heyra frá þér þarna rétt fyrir jólin, þá var hugur í þér. Ertu búin að hringja í einhverja kennara? Leyf mér að fylgjast með eða aðstoða. Veit um einn góðan kennara sem ég nefndi ekki en gæti komið til greina. Þetta gæti verið góð aðferð til að komast á réttan kjöl.   Var að syngja þetta lag áðan og datt í hug að senda þér ljóðið.

Megi gæfan þig geyma,

megi Guð þér færa sigurlag.

Megi sól lýsa þína leið,

megi ljós þitt skína sérhvern dag.

Og bænar bið ég þér,

að ávallt geymi

Þig Guð í hendi sér.

 Bestu kv. Helga

Helga Loftsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 21:44

12 identicon

Elsku besti Ármann.

Endilega komdu við í Ljósinu þar bíða þín margir kossar og mörg knús.  Þú yrðir yfir þig hrifinn af fallega verkstæðinu í kjallaranum.  Jónas skírði það draum Garðars því við Garðar heitinn töluðum oft um drauminn að eignast fallegt verkstæði. Ég hugsa oft til þín, og gangi þér vel Ármann minn.

Þín vinkona

Erna Ljósberi

Erna Ljós (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband