Hvaleyrarlón - útivistarparadís - ylströnd

 

Sæl mín elskanlegu

Mikið er gott að vita hvað þið fylgist nú mörg með kallinum eins og ég er nú latur að tjá mig og senda frá mér línu.  Ég þakka ykkur öllum fyrir kveðjur og hlýja strauma með viðkomu á síðunni minni.  Sannast sagna eru mínar erfiðustu stundir að fara framúr á morgnana, undan hlýrri sænginni og fara fram í svarta myrkrið til þess að tendra ljósin í húsinu.  Svo streymir blessað vatnir fram úr sturtuhausnum og flæðir um allan líkamann og hressir "sál mína" eins og segir í Davíðssálmi nr. ? (man ekki akkúrat nr. núna).  Nú svo er ég svo lánsamur að vinna á líflegum vinnustað þar sem ég starfa með sex ungum konum hverri annarri betri en þeirri sístu (bara í gríni).  Þar koma líka við fullt af Hafnfirðingum, ungum og öldruðum, mjóum og digrum, stuttum og löngum sem sækja þjónustu af ýmsum toga hjá okkur.

Ég svara líka símanum til jafns við dömurnar; "Þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar, - Ármann -, góðan dag"!  þá kemur stundum þrúgandi þögn, þar til ég segi; halló!  Ó almáttugur, ég sem hélt þetta væri símsvari!  Nei - nei, ég er af holdi og blóði (en ekki skrúfum og stáli)!

Við þjónustufulltrúarnir eigum auðvitað helst að vita allt milli himins og jarðar.  Og svo að geta svarað öllu sem fólki dettur í hug að spyrja um.  Nú svo tökum við orðið endalaust á móti teikningum frá húsbyggjendum sem svarar til margföldum Svartaskógi í Þýskalandi að umfangi, í hverri viku.  Fólk leggur inn fyrstu eintökin af byggingarnefndarteikningum sínum og svo koma iðulega inn óskir um áðursamþykktar deiliskipulagsbreytingar, sérteikningar í haugum o.s.frv.

Ég horfi dag hvern með hryggð á Hvaleyrarlónið sem jafnan verður á vegi mínum á leiðinni heim og að heiman.  Fólk hefur talað svo mikið um þetta náttúruvætti þar sem farfuglar hafa viðkomu vor og haust á leið sinni til varpstöðvanna og svo í bakaleiðinni til hlýrri og búsældarlegri vetursetu sunnar á hnettinum.  Í sannleika sagt lít ég þennan viðkomustað fuglanna sem versta forarpoll sem ég efa að nema þeir allra hraustustu lifi af bakteríurnar sem þeir svelgja uppúr klóakforinni þarna niðurfrá.  Fram til þessa hefur ekki mátt hrófla við neinu í umhverfinu þarna þar til nú allt í einu er farið að ryðja stórgrýti niður við innri strönd Lónsins og þrengja þar með rennuna sem stýrir flóði og fjöru í "brúna pollinum" þar sem afurðir klóaksins hafa verið ýmist á innleið eða útleið eftir sjávarföllum.  Það mega vera hraustir fuglar með afburða ónæmiskerfi sem lifa kræsingarnar af þarna í seyrunni.  Og nú ætla þeir að fara að byggja þarna neðan við Hvaleyrarbrautina eitthvert atvinnuhúsnæði og e.t.v. húsnæði fyrir siglingarklúbbinn.

Ég hef lengi alið mér þann draum í brjósti að þarna yrði ráðist í það stórvirki að moka allri drullunni uppúr pollinum og setja hvítan skeljasand í staðinn nú þegar klóaksútrásirnar eru komnar í "súkkulaðileiðsluna" sem liggur suður fyrir Hvaleyri eða þar sem aðal klóaksdælustöðin fyrir Hafnarfjörð er að rísa.  Nota síðan sjávarföllin um rennuna fyrrnefndu til þess að skipta um eða hreyfa við sjónum í Lóninu þegar hún verður orðin hrein.  Sjórinn í Lóninu yrði síðan blandaður heitu affalls- eða veituvatni til þess að skapa flottustu ylströnd í heimi.  Þá þyrfti jafnframt að segja upp öllum lóðarleigusamningunum við bátaskýlaamlóðana sem safnað að sér ryðguðum kerrum og öðru ónothæfu drasli.  Hvað þá að maður nefni nú ekki köflótta og ryðgaða bárujárnið á kofunum þar sem nánast enginn hefur séð sóma sinn í að bæta ásýnd þessara hreysa með málningu eða nýju járni.  Ég læt svo öðrum eftir hugmyndaflugið um hverskonar þjónustustarfsemi eigi svo að rísa þarna í staðinn og hvaða útlit það eigi að sýna.  Að sjálfsögðu hef ég frekari hugmyndir um það allt saman en það yrði sko efni í væna kilju eða þykka bók.  Blessuð látið þið nú gamminn geysa hvað þetta varðar og komið með tillögur!!!!!!!!!!  -  Ég lofa því að þetta er einhver veðursælasti staðurinn í Hafnarfirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hefur ekkert með sálarástand þitt að gera að finnast erfitt að fara undan hlýrri sænginni á morgnanna........þetta er alþekkt vandamál og gerist hjá ungum, öldruðum, mjóum og digrum, stuttum og löngum !

Það er nú verið að hreinsa lónið og stendur til að friðlýsa herlegheitin þar sem það er á náttúruminjaskrá. Við hreinsunina hressist þetta allt saman en það gæti nú verið gaman að hafa þarna ylströnd. En þá þyrtum við að vera með hjálma því golfararnir eru nánast komnir ofan í lónið. En það getur svosum verið í lagi að nota hjálm svona endrum og eins. Veðursælt segir þú.......það er alþekkt að holtið er það mesta veðrarassgat í Hafnarfirði...og hana nú!

Bebba (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 22:59

2 Smámynd: Ármann Eiríksson

Elsku Bebba 

Gaman að fá viðbrögð frá þér.  Ætlar þú að hreinsa burtu stórgrýtið sem búið er að sturta neðan við Hvaleyrarbrautina, sama sem ofan í lónið! Á að moka upp aldagömlum, samsöfnuðum fuglaskít og mannaskít sem hefur damlað þarna hvað með öðru um langan aldur.  Skyldi nokkurn tímann hafa verði mæld kólíbakterían í þessum drullupolli.  Veit nokkur hversu margir fuglar hafa látist af bráðasýkingu úr þessum yndislega "veislupotti" þeirra þarna í Lóninu. Nú og svo er það veðurfarið við Lónið!  Maður ber ekki saman veðurfarið í hæstu hæðum, þ.e.a.s. uppá Holtinu þar sem ég bý og lónssvæðið sem er umlukt skeifulaga holti sem myndar skjól fyrir verstu og vindasömustu skaðræðisáttunum í Hafnarfirði.  Komdu einhvertímann og labbaðu með mér gönguhringinn minn um Holtið, niður og suður með golfvellinum, á sléttunna neðan við Vestur- og Suðurholtið síðan uppí hæstu hæðir við Hvaleyrarskóla, ofan við Þorlákstún, út Vallarbarð og niður Strandgötu, austan við Lindarhvamm og Smáralund, fyrir Krónuna og inná Hvaleyrarbraut.  Senn styttist nú í Lónssvæðið og maður fer að skynja veðrabrigðin og skítlyktina sem svífur í logninu.  Ég veit hreint ekki hvort hefur lyktað meira, ýlduna og þurrkun þorskhausana hjá Alla Sæm og Gunna Óla fyrir Afríkumarkað eða fnykurinn uppúr Lóninu á fjöru þegar sólin skín í Lónsbotninn í logninu og einskonar tíbrá af skítalykt sindrar í loftinu á þessum slóðum.  Aumingja fólkið sem er að kaupa sér íbúðir í nýju blokkunum við Skipalón. Ef það á ekki eftir að láta heyra í sér. Loftslagið á þessum slóðum þótti nú ekki til fyrir myndar í tíð Lýsi og Mjöls hf. en svei mér þá ef það er bara nokkru betra í dag við fyrrgreindar aðstæður.

Ef hugmynd mín um ylströnd þarna nær einhvertímann fram að ganga, þá finnst mér að forlagatrúarfólk megi alveg bera hjálm við sundiðkanir sínar ef því sýnist svo og líka kút og kork.

Húrra fyrir þér gamla vinkona  

Ármann Eiríksson, 14.11.2007 kl. 11:08

3 identicon

Ég er nú alveg sammála þér Ármann minn að það er ekki beint auðvelt að fara undann sænginni hérna á Laugarvatni þar sem að götuljósin eru ekki í miklu magni og það virðist dimma enn fyrr...

Ég væri ekki lengi að skella mér á ylströndina ef að hún yrði að veruleika ;) einhverra hluta vegna þá sé ég það ekki alveg gerast í mínu lífi, þannig að ég læt mig bara dreyma.

Kveðja frá Laugarvatni

Íris Ósk (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband