4.12.2007 | 22:32
Hefurðu bragðað Alabastin?
Vaknaði við vekjaraklukkuna að vanda. Dreif mig framúr og fór í góða sturtu. Borðaði mína AB-léttmjólk með Special K-kornflexi og fletti Mogganum. Það var hvít slyddudreif úti fyrir sem bætti jú aðeins smá skímu í morgunsvartnættið. Í stað þess að halda til vinnu lagði ég leið mína inní Þönglabakka í Mjódd til fundar við krabbameinslækninn minn Sigurð Böðvarsson samkvæmt áætlun sem er á 3-4 mánaða fresti. Hann skoðaði mig, þreifaði, mældi og hlustaði ásamt því að taka blóðþrýsting og fl. Hann spurði mig um líðan og ég yppti öxlum og svaraði; status co. Hans dómur var að málin virtust í kyrrstöðu og þakkaði það að sjálfsögðu GLIVEC- lyfinu sem ég hef verið að taka síðan um árið.
Næst skrifaði hann uppá tilskipun um að ég færi í blóðsýnatöku. Eftir þó nokkra bið, sem þeir þekkja einir sem eru þarna regluleg, þá upphófust nálastungur hér og þar því sannleikurinn er sá, að það er eins og æðakerfið í mér sé í andstöðu við hjúkrunarkonur og sjúkraliða sem hampa nálum. Þær bókstaflega draga sig saman og fara í felur. Jafnvel þó að handleggirnir séu ólaðir og þrengt að blóðflæðinu. Næst hefst slagurinn við að stinga þar sem líklegast er von að sækja megi dropa. Nálin er dregin fram og til baka í leit að einhverri æð sem gæti gefið dreitil. Snúið og hrært þar til feluleikurinn ber ekki lengur árangur. Blóðið streymir nú loks í hvert smáglasið á fætur öðru til frekari rannsókna. Ég var spurður hvort ég kynni kennitöluna mína, líkleg til þess að athuga hvort ég væri með réttu ráði. Jú, jú, ég stóðst prófið, blóðdreitlinum fátækari. Ég fékk stóran bómullarhnoðra yfir gatið (gryfjuna) og allt var síðan plástrað fast við hárafar upphandleggsins. Ég kvaddi með kurt og pí, ég veit ekki af hverju!
Næst lá leiðin yfir brú mikla sem tengir tvær byggingar á þessu læknisfræðilega setri saman. Nú átti ég að gangast undir hina reglulegu sneiðmyndatöku sem alltaf fylgir jú en ekki með þessu tempói. Vaninn hefur verið sá að koma einhverjum degi síðar og mikið lagt uppúr því að vera fastandi þegar maður hefur drykkjuna á nærri heilum lítra af hvítu glundri sem þó hefur skánað með árunum að því leytinu að nú finnur maður greinilegan appelsínukeim af drukknum. Kona sem hjá mér settist ásamt fullorðinni móður sinni huggaði þá gömlu með því að þetta væri sko miklu betra í dag því hún myndi hvernig þetta bragðaðist eins og Alabastin sparsl hér á árum áður þegar hún þurfti að standa í viðlíka veseni útaf einhverju sem ég lagði ekki á minnið. En ég komst ekki hjá þeirri hugsun að velta fyrir mér af hverju skyldi konan hafa verið að borða Alabastin, því hún var svo ákveðin að drykkurinn væri - sko alveg eins og - títtnefnt Alabastin. Ég velti líka fyrir mér hvort hægðir ungu konunnar hefðu þá ekki verið algjör steypa!
Við sem tókum okkur sæti þarna á biðstofunni vorum öll að drekka þennan görótta drykk og okkur sagt að gefa okkur fullan klukkutíma til þess. Tíminn leið og það lækkaði líka jafnt og markvisst á brúsanum. Loks eftir langa mæðu var ég kallaður inn til þess að afklæðast öllu nema sokkum og nærbuxum. Mér var fenginn spaugilegur serkur í ljósbláu sem átti sennilega að skýla nekt minni fyrir óviðkomandi. Ég leit í spegil og sá fyrir mér mann sem gat verið meðlimur í einhverri fjarlægri munkareglu, líklega í Himalaja, nema hvað ég hefði getað fullkomnað myndina með því að krúnuraka á mér höfuðið.
Nú svo kemur þetta sígilda þegar maður er meðhöndlaður eins og maður hafi aldrei komið þarna áður og allt skýrt út í hörgul og svo er botnað; þú kannast e.t.v. við þetta allt saman. Auðvitað svara ég bara; já, - já, þó mér finnist ég eigi að hafa sagt, já svona u.þ.b. 20 30 sinnum. Ég hugsa að ég eigi ábyggilega eftir að detta dauður niður úr hógværð frekar en af völdum krabbameins.
Ég veit ekki af hverju ég tengi þetta allt saman áleggi ofan á brauð? Sennilega bara bilun eða e.t.v. æðruleysið (; vil ég helst láta það heita)! Ég sé mig alltaf fyrir mér sem sneidda spægipylsu þegar mér er rennt fram og til baka í þessu blessaða sneiðmyndatæki. Gæti e.t.v. verið tengt minningum frá liðinni tíð þegar ég vann hjá Síld og Fisk(i) á unglingsárum. Það var ekki svo sjaldan að maður var settur á áleggsskurðarhnífinn.
Mér er líka farið að standa á sama þegar leitað er að æð í handleggjunum á mér til að koma upp legg í til þess dæla í mig skuggaefninu. Þá er fyrst skoðaður hægri handleggurinn uppúr og niðurúr, höfuðið hrist eftir að þrengingarólin hefur verið strekkt um handlegginn til hins ýtrasta og æðarnar aftur farnar í feluleik. Næst er sá vinstri rannsakaður á sama hátt með sömu niðurstöðum. Ég spurði nú bara sí svona, geturðu ekki bara farið í gatið eftir stunguna sem blóðsýnatökukonan gerði. Það var reynt og hrært aftur í holdinu en ekkert fékkst. Þá var farið aftur í hægri og langur tími leið þar til angurvær hjúkkan treysti sér til að stinga. Þar sem ég lá varð mér að orði, að bráðum yrði ég orðinn eins og loftaplatan fyrir ofan höfuðin á okkur. Í fyrstu skildi hún ekki hvað ég átti við en leit nú samt upp og horfði í gataplöturnar í loftinu. Fyrir rest hafðist þetta nú og ég fékk gamalkunnuga tilfinningu sem minnir á innvortis hitabylgju sem meira að segja ruglar allt lyktar- og bragðskini um stund.
Þegar raðaðgerðinni var loks allri lokið var kl. orðin langt gengin í tvö. Ég ók loks, - sennileg óökuhæfur, heim á leið þar sem ég komst loks í fyrstu föstu fæðu dagsins sem bragðaðist ágætleg. Rúmið bókstaflega hrópaði á mig en ekki mátti gleyma föstum liðum eins og venjulega sem var að tak inn krabbameinslyfið og önnur fylgilyf. Síðan skreið ég loks undir sæng og steinsofnaði á mitt græna eyra.
Næst er svo bara að bíða og vona, að niðurstöður mynda og rannsókna muni leiða í ljós jákvæðar niðurstöður um áframhaldandi kyrrstöðu meina og meinvarpa. Guð gefi að svo verði.
Athugasemdir
Ég hef ekki bragðað alabastin en ég hef bragðað Absinth sem er mjög göróttur drykkur og mæli ég eigi með að þú fáir þér sopa af þeim meiði áður en haldið er í krabbameinsrannsóknir. Vonandi er allt í orden með gamla fordinn.! Sjáumst spræk. Bebba
Bebba (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 22:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.