Slagsmálin við plastdúkinn

 

Kæru vinir, heldur er ég að tosast upp og þakka það fyrst og fremst vini mínum dr. Snorra Ingimarssyni ásamt kærleiksstraumum frá ykkur kæra skyldfólk og vinir aðrir. 

Ég lenti í gríðarlegum slagsmálum við heilmikinn plastdúk í fyrradag sem er búinn að liggja þegjandi uppí hillu útí bílskúr í heil tvö ár.  Dúkur þessi var keyptur til þess að skipta út fyrir annan sem var stagbættur og marglímdur og veitti orðið takmarkað skjól í "bogagróðurhúsinu" okkar eða öllu heldur því sem það átti að skýla, verma og ljóstillífa.

Þegar sá gamli (dúkurinn) var orðinn laus og við Sigrún sviptum honum af áttuðum við okkur á hvað "hann" var farinn að blása.  Við nærri tókumst á loft því það blés sko byrlega þegar hér var komið sögu..  Næsta mál var svo að skríða með jörðinni undan vindi og draga á eftir sér samanbrotinn plastdrauginn.  Lauma honum síðan yfir bogana (grindina) sem ber uppi gagnsætt plastið sem veita á skjól, sólarljós og il fyrir viðkvæman gróður sem lifir ekki á íslenskum berangri.  Tvisvar hélt ég að þetta færi alt útí vindinn en þrautseigjan reyndist okkur hliðholl að þessu sinni eins og stundum áður.  Ég náði að festa dúkinn allan hringinn með listum sem ég skrúfaði í sökkulvegginn.  Og nú horfi ég í gegnum gróðurhúsið okkar sem bærist varla þótt hann blási hressileg á Hörgsholtinu og rigni.  Það veitir manni nýja vídd í tilveruna að byrja að sá fyrir sumarblómum inní bílskúr undir ljósi í febrúar, sjá fræin spíra, taka angana smáu og "prikla" þeim í litla potta og síðar jafnvel í ennþá stærri potta og svo útí blómabeð til að gleðja augu okkar og þeirra sem bera að garði.  Ég hef komist að því að þessi vinna lengir bókstaflega sumarið og ekki veitir nú af.  Garðurinn okkar hefur aldrei verið eins blómstrandi eins og þetta sumarið.  Býflugur komust á kreik og ferðuðust milli blómakróna eins og þær ættu lífið að leysa.  Ég lærði að vingast við þær fljótlega enda bæði þær og ég alveg sauðmeinlausar skepnur.  Sem betur fer sá ég engan geitung við heimili mitt á þessu sumri en fuglana finnst mér alveg vanta í vistkerfið.  Ég óttast mest að máfurinn hafi gert sér mat úr hreiðrum þeirra einhverra og svo bansettir kettirnir sem eru hérna útum allt holtið. 

En þessi baráttusaga blés mér kapp í kinn og það meira að segja svo að ég er með bæði harðsperrur og strengi eftir hamaganginn.  Ég ætla bara ekki að lýsa því hvað það getur verið gott að finna til með þessum hætti.  Sinnið og sálartetrið þegir þá á meðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Soll-ann

Sko kallinn allur að hressast, en hefði ekki verið betra að gera þetta í sumar (smá grín)

Vonandi verður hressleikinn meiri og meiri með hverjum degi.

Mundu mér þykir svo vænt um ykkur.

Soll-ann, 5.11.2007 kl. 17:08

2 identicon

Kæri vinur...mikið er gott að þér er farið að líða betur.En þetta ævintýri ykkar Sigrúnar hefur nú verið dálítið skemmtilegt á að horfa,bara lætur mig vita næst þegar þið ætlið í svona ævintýramennsku.Bið að heilsa frúnni.Baráttukveðjur og knús

Björk töffari (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 13:47

3 identicon

Hahaha ég sé ykkur hjónakornin alveg í anda skríðandi með dúkinn..

Gott að heyra að þér líði betur

Kv Signý Rós

Signý Rós Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 09:24

4 identicon

Sæll Ármann minn gott að heyra að þú ert að hressast,sendi þér góða strauma,bestu kveðjur Inga

ingileif Finnbogadóttir (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 20:17

5 identicon

Þú ert ekki fokking að djóka í mér...........má ég benda þér á það að hægt er að kaupa stjúpurnar tilbúnar beint í beðið í Blómaval á vorin.........!  Þá ertu bæði laus við slagsmálin, vesenið, vökva, prikla, sá og allt gúmmulaðið!! 

En þú ert soddan garðyrkjukall.........ég veit þú hefur gaman að stússinu eins og amma mín sagði svo oft og iðulega.!

Guð gefi að það fari nú aðeins að lægja þannig að garðyrkjustöðin fjúki nú ekki útá hafsauga einn góðan (vindasaman)  veðurdag með öllu innvolsinu.!

bebba (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 12:06

6 identicon

Sæll Ármann. Mátti til með að senda þér línu, þegar ég sá hver þú ert, gaman að þessum vangaveltum þínum um íslenskt mál, einnig hefði átt að fylgja mynd af ykkur Sigrúnu með plastið.

Leit einnig inn til Hemma þíns, þeir eru frábærir þessir strákar þínir.

Vonandi hefur þú betur í baráttunni við krabbann, þetta er þræla vinna. Sendi ykkur góðar kveðjur og hugsa til ykkar í bænum mínum kveðja Helga Ármanns

Helga Ármanns (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband