Nú er það svart!

 

Kæru vinir, kunningjar og aðrir gestir sem mæta á síðuna mína.

Þá er haustið brostið á með lækkandi sól og myrkri sem teygir anga sína lengra og lengra inní daginn og sálina.  Ég man hvað ég blés á allt tal um skammdegisþunglyndi og depurð í rökkrinu hér áður fyrr.  Mér hefndist grimmilega fyrir það.  Frá því að krabbameinslyfin mín tóku að vinna sitt ágætu verk og halda æxlum og meinum í skefjum þá var eitt og annað sem fór að gefa sig í staðinn.  Nú er svo komið að ég dett orðið niður í djúpan dal svartnættis og kvíða þegar daginn styttir.  Mér finnst þetta verða verra með hverju árinu sem líður eða frá því  skömmu eftir að (GLIVEC) lyfjataka mín hófst árið 2001.

Ég kýs að lýsa ásandi mínu við það, að detta inní tilvist þar sem maður er staddur aleinn með sjálfum sér í glæstum sölum Loðvíks 14. eða riddarasal Kristjánsborgarhallar eða einhverju álíka glæsimannvirki sem ég hef orðið uppnuminn af með öðru samferðafólki.  Eitthvað er öðruvísi.  Jú nú er ég þarna einn og yfirgefinn, einmanna, hræddur og kvíðinn.  Það er vont að upplifa líðan sína eins og í endalausu tómarúmi þar sem enginn annar er til staðar til þess að samsama sig við.  Vera eins og galtómt rekald sem getur sokkið þá og þegar án þess að fá nokkuð við ráðið.

Það sem er svo undarlegt við þetta alltsaman er að maður fær nánast enga viðvörun.  Maður bara dettur í þetta far einn kaldann og dimman vetrardag.  Fyrir hálfum mánuði var ég glaður og dáðist að því hvað mér fannst ég vera í góðu jafnvægi.  En svo gerðist þetta bara eins og hendi væri veifað.  Nú líður mér best að vera undir sæng og breiða uppfyrir haus, leiða hugann að einhverju sem mér finnst fallegt og gott.  Stundum tekst þetta um stund en hopar svo fyrir ísköldum raunveruleikanum.

Um daginn fór ég í magaspeglun hjá Kjartani Örvari sem er fastbundið eftirlit á 6 mánaða fresti með æxlinu innan á magaveggnum.  Það hafði ekkert breyst frá því síðast og þakkaði Kjartan GLIVEC-inu fyrir það.  Vegna bakflæðis vandamála frá gamalli tíð, þá spurði ég hann hvort ekki væri bara hægt að þrengja magaopið og koma þessu í lag.

Hann horfði á mig um stund og sagði svo;  Þú ert nú búinn að lifa ótrúlega lengi frá því að þú greindist, því fer maður ekkert að krukka með hnífa og ráðast í uppskurð sem gæti raskað öllum lífsbúskap þínum.  Vá, þetta hafði ég ekki hugsað.  En mikið kann ég nú samt vel við Kjartan (hrosshausinn þann) sem segir hlutina umbúðalaust.  Hann er frábær.

Síðustu sneiðmyndir af lifrinni sýndu líka kyrrstöðu æxlanna þau sem Sigurður Böðvarsson krabbameinlæknir rannsakar með sneiðmyndun og blóðsýnatökum á 3-4ra mánaða fresti.

Snorri Ingimarsson krabbameins- og geðlæknir, góður kunningi minn síðan við vorum skátar í gamladaga tjaslar uppá sálartetrið í mér eftir þörfum.  Nú var líka svo komið að ég hringdi í hann í gær í hremmingum mínum og lagði hann mér lífsreglurnar með það að hefja að nýju inntöku þunglyndislyfjanna sem ég hafði trappað mig útúr snemmsumars.  Mikið er ég nú samt þakklátur fyrir þá færu sérfræðinga sem tilbúnir eru að þjónusta mann og grípa í taumana þegar með þarf þess virkilega með.  Aldrei skal ég kvarta yfir sjúkrageiranum hvað sem aðrir kunna að segja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll kæri vinur.Leitt að heyra að skammdegið er að fara illa með þig,vona að þú fáir einhverja bót á því.En annars vonast ég til að við förum að hittast og kætast saman aftur,komin tími á að dusta rykið af félaginu okkar og láta hendur standa fram úr ermum.Guð veri með þér og ég bið að heilsa Sigrúnu.Knús

Björk töffari (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 20:20

2 Smámynd: Heidi Strand

Baráttukveðjur til þín. Íslenska heilbrigðiskerfið er með því besta í heiminum.

Heidi Strand, 30.10.2007 kl. 23:37

3 Smámynd: Soll-ann

Elsku kallinn minn ekki láta skammdegið buga þig. Skelltu þér í kaffi í Ljósið ef þú átt auka tíma. Þá færðu fullt af knúsi og kossum.

Soll-ann, 31.10.2007 kl. 18:08

4 identicon

Ármann minn, mikið er leitt að heyra af þessum barningi þínum með heilsuna.  Ég skal hafa þig í bænum mínum og senda þér styrk og hlýjar hugsanir.

Knúsaðu hana Sigrúnu frá mér, ég hugsa oft til ykkar.

Kærleikskveðja

Hafdís sem var í hópnum:) 

Hafdís (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 00:28

5 identicon

Sendum þér birtu og hlýju elsku pabbi / afi. Þú átt eftir að rífa þig upp úr þessari lægð eins og öllum hinum - það kemur vor eftir þetta vor. Nú er kominn nóvember og skammdegið skollið á, en nóvember hefur einnig í för með sér fullt af fallegum jólaljósum - og þá byrtir nú heldur betur yfir borg og bæ - en varaðu þig þó á ösinni sem samtímis fer í gang... Farðu vel með þig, we luuuvja :)

Steina, Alfa og Mariam.

Steina (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 10:34

6 Smámynd: Ármann Eiríksson

Elsku börn, barnabörn og kæru vinir.  Ég held ég sé kominn með ágætt við þessu, frá lækni.  Enda held ég að karlinn sé byrjaður að tosast upp.  Gott að vera kominn í vinnuna, hitta þessar elskur sem vinna með mér og verða að þola mig alla virka daga eins og ég er.  Hitta fyrir alla viðskiptavinina sem ég þekki nú marga hverja og fá vingjarnlegt viðmót þeirra. Nú svo er stutt í jólafrokost stórfjölskyldunnar og öll jólaljósin sem birta upp svartasta skammdegið, jól og áramót og allt það.  Og svo ekki hvað síst; allan stuðninginn ykkar.  Takk fyrir mig.

Ármann Eiríksson, 2.11.2007 kl. 16:41

7 identicon

Elsku Ármann,mér þykir vænt um að heyra að það er að birta til hjá þér.Þú veist hvar við erum og það væri nú gaman ef þú hefðir tíma til að kíkja.Guð blessi þig kæri vinur.

Björk töffari (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 23:23

8 identicon

Uss....þú ferð ekki að detta ofaní holu svona rétt fyrir jólin.......minni þig á nokkra gleðskapi sem eru á næstunni, þar skal fyrst nefna ilmandi skötuveislu í Spóaásnum með grjónagrjót og alles........jólakortagerð og allt stússið í kringum að skreyta heimilið grænum greinum. Mæli með hressilegum göngutúr á hverjum degi.....líka í roki!. Ertu búin að setja niður haustlaukana? Þú þarft að koma þér hið snarasta uppúr holunni góði minn.

Bebba (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband