Dittinn og dattinn

Undarlegt er að vera orðinn "bloggtengdur".  Mér finnst á stundum ég vera að svíkjast um ef ég finn mér ekki stund til þess að setjast niður og skrifa eitthvað og senda útá öldur ljósvakans.  Mér finnst "bloggtengingin" jafnvel vera orðin að einhverskonar harðstjóra sem hvíslar sífellt; ætlarðu ekki að skrifa nokkrar línur í dag fyrir fólkið þarna úti?

Kastljósið fangaði athygli mína í kvöld eins og svo oft áður. Viðtalið við Þórarinn Tirfingsson um fíkla og getspá um fjölda þeirra sem sprauta sig með hörðum efnum og hvort hér sé að skella á bylgja HIV smitaðra fannst mér ógnvekjandi. Einkum í skugga þeirrar alvöru að verið var að fanga einstaklinga á Fáskrúðsfirði í dag sem reyndu að koma miklu magni eiturlyfja inní landið.  Mennirnir eru taldir tengjast einu umfangsmesta fíkniefnasmygli sem upp hefur komist hér á landi, en hald var lagt á 50 - 60 kíló af amfetamíni sem smyglað hafði verið til landsins með skútu til Fáskrúðsfjarðar frá Danmörku um Færeyjar. Ég fagna árvekni fíkniefnalögreglunnar í þessu landi og spurði sjálfan mig jafnframt; skyldi Þórarinn Tirfingsson vera búinn að fá veitta fálkaorðuna fyrir langa og stranga baráttu í þágu þeirra sem misstgið hafa sig í þessu lífi.

Fyrr í vikunni las ég í Morgunblaðinu um dómsúrskurð þar sem Hæstiréttur Íslands mildaði fjögurra ára dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem nauðgaði konu á mjög hrottafenginn hátt á síðasta ári. Við áfríun dæmdi Hæstiréttur manninn í 3 og ½ árs fangelsi þar sem hann á aðeins að greiða konunni eina milljón í skaðabætur. Hæstiréttur bætti við sök mannsins vegna annarra mála sem upp komu en dró úr refsingunni! Ég held að dómskerfi okkar Íslendinga sé ekki alveg að standa sig.

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt fertugan karlmann í 13 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stela úrbeinuðu hangikjötslæri úr verslun Bónus í Hveragerði í janúar á þessu ári. Verjandi mannsins sagði fyrir dómnum, að það yrði veruleg röskun á lífi fjölskyldu mannsins og þeim árangri, sem hann hefði náð við að snúa aftur til betra lífs, yrði honum gert að sæta fangelsi fyrir brotið. Dómurinn tók undir þetta og sagði ljóst, að fangelsisvist myndi kollvarpa því starfi sem maðurinn hafi þegar hafið.  Afplánun refsingar myndi hvorki þjóna almannahagsmunum, hagsmunum ákærða né refsivörslukerfisins.

Hver skyldi refsiramminn vera fyrir að stela þremur lærum úr Bónus? Skyldi það jafngilda nauðgun með hrottafengnum hætti? Eða skyldi maðurinn fá magnafslátt samkvæmt gjaldskrá dómaranna eða með tilliti til almannahagsmuna, hagsmuna ákærða eða refsivörslukerfisins? Vegir dómaranna eru víst órannsakanlegir enda skrítinn fugl kanínan!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kokkurinn Ógurlegi

Já þetta er skrítið þetta dómskerfi sem við höfum, og allt of vægir dómar fyrir hrottaglæpi og alltof háir fyrir tittlingaskít á borð við þjófnað á steindauðu hangilæri úr bónus, magnafsláttur er veittur í dómskerfinu okkar, það er ekki mikill munur á refsingunni fyrir að stela 1 eða 100 miljónum, þannig að ef þið eruð að fara að stela, steliði þá stórt, það er boðskapur dóma í íslensku dómskerfi!

Kokkurinn Ógurlegi, 21.9.2007 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband