Farðu í friði, kæri vinur!

     † Haukur Þorvaldsson

Fallinn er nú frá góður drengur, - eldhuginn, baráttujaxlinn og hugsjónamaðurinn Haukur Þorvaldsson.

Haukur var einn af okkur, stofnendum Vonarinnar, hagsmunasamtaka krabbameinsgreindra. Hann var upphafsmaðurinn og hugmyndasmiðurinn að félagsstofnuninni og hlaut einróma kosningu sem fyrsti formaður hennar á stofnfundi félagsins 30. janúar s.l.

Kynni okkar Hauks hófust í Ljósinu en Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.  Þar bar Haukur höfuð og herðar yfir alla eins og víðast hvar þar sem hann kom.  Hann var þessi einlægi, glaðværi og brosmildi einstaklingur sem hvarvetna naut verðskuldaðrar athygli. 

Ekki var hann alveg laus við smá stríðni þegar sá gállinn var á honum.  Skrif hans um hagsmunamál krabbameinsgreindra og vankanta í heilbrigðiskerfinu sem birtust í dagblöðunum gátu verið beitt og stundum svolítið hvatvís þegar hann vildi svo vera láta.  

Hann var einungis ný orðinn 49 ára síðan 15. september þegar meinin tóku loks að yfirbuga og lögðu að velli þennan fjallmyndarlega víking og hugrakka baráttumann, þann 2. október s.l.

Haukur dvaldi síðustu vikurnar á líknardeild Landspítalans.  Hann kvaðst sjálfur í upphafi ekki ætla að vera þar lengi.  Reyndar trúði hann mér fyrir því að hann ætlaði að vera kominn út fyrir 15. september sem ég vissi þá ekki, að væri afmælisdagurinn hans.  Þegar það gekk ekki upp sá ég fljótt  hvernig af honum dró og vonin þvarr þó svo hann væri ekkert að flagga því við okkur hin.  

Við félagarnir í Voninni stöndum hnípin eftir og talsvert ráðvillt.  Haukur var nefnilega sá sem dró vagninn og blés eldi í glæðurnar.  Það var hann sem bjó yfir eldmóðnum og hreif okkur hin með og hvatti til dáða með áhuga sínum og einbeittum vilja til þess að láta gott af sér leiða fyrir þá sem þurfa að líða vegna veikinda sinna og síðan aumkvunarverðra kjara þeirra í íslensku alsnægtasamfélagi.

Við Haukur áttum góða vikudvöl saman að Sólheimum í Grímsnesi í ágúst á s.l. ári í höfðinglegu boði líknar- og vinafélagsins Bergmáls fyrir krabbameinsgreinda sjúklinga. Þar skeggræddum við um margt og þá ekki hvað síst um hugmyndir hans að stofnun hagsmunasamtaka krabbameinsgreindra sem áttu þá hug hans að mestu.  Hann kvaðst endilega vilja fá mig í lið með sér ásamt fleirum sem hann hafði viðra hugmyndina við.  Hann sagðist vilja fá mig með sér í stjórn þar sem ég gæti tekið stöðu ritara, m.a. til þess að ég skyldi jú hafa nóg að gera á fundum og til þess að fyrirbyggja að ég kjaftaði ekki allt og alla í kaf.  Og svo hló hann sínum dillandi stríðnishlátri og klappaði mér á öxlina til að fyrirbyggja það, að mér yrði ekki misboðið.

Hjá okkur félögum og vinum hans er nú stórt skarð fyrir skildi.  Þó er það skarð einungis glufa í samanburði við þann missi sem kona hans, Björg Jóhannesdóttir og sonur þeirra Björgvin Margeir sem verður átta ára á laugardaginn 6. október, þurfa að lifa við.  Ennfremur eldri börnin hans, þau; Agnes Björk, Hermann Haukur og Þorvaldur sem og aðstandendur og nánir vinir allir.

Þeim votta ég mína dýpstu samúð og bið algóðan Guð að hugga þau og styrkja í erfiðri raun. 

Lokaorð mín verða því tilvitnun í 3 erindi sálmsins "Drottinn vakir". 

 

 

Drottinn vakir, Drottinn vakir

daga' og nætur yfir þér.

Blíðlynd eins og besta móðir

ber hann þig í faðmi sér.

Allir þótt þér aðrir bregðist,

aldrei hann á burtu fer.

Drottinn elskar, - Drottinn vakir

daga' og nætur yfir þér.

 

Löng þá sjúkdómsleiðin verður,

lífið hvergi vægir þér,

Þrautir magnast, þrjóta kraftar,

þungt og sárt hvert sporið er,

honum treystu, hjálpin kemur,

hann af raunum sigur ber.

Drottinn elskar, - Drottinn vakir

daga' og nætur yfir þér.

 

Þegar æviröðull rennur,

rökkvar fyrir sjónum þér,

hræðstu eigi, hel er fortjald,

hinum megin birtan er.

Höndin, sem þig hingað leiddi,

himins til þig aftur ber.

Drottinn elskar, - Drottinn vakir

daga´og nætur yfir þér.

Sigurð Kristófer Pétursson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér; hlý orð, og verðskulduð, í garð þessa ágæta frænda míns.

Blessuð sé minning hans.

                                            Með kærri kveðju /

         Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 20:27

2 identicon

Elsku Ármann...gaman að sjá að þú ert að blogga,ég hafði ekki hugmynd um það.En það er satt að stórt skarð er höggvið í okkar hóp eftir missi Hauksins okkar.En kistulagningin var yndislega falleg og mikill friður yfir okkar manni.Við hittumst fljótt kæri vinur og hafðu það gott.Baráttukveðjur Björk Andersen

Björk Andersen (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 22:11

3 identicon

Sæll Ármann minn, ég samhryggist þér vegna vina þíns.

Ég vissi ekki að þú værir að blogga rakst bara á síðuna fyrir tilviljun, en mun kíkja á þig reglulega héðan í frá.

Mikið sakna ég að fá þig í klippingu og spjall .

Langaði  bara að segja hæ og hlakka til að hitta þig aftur.

Kv Signý Rós 

Signý Rós Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 12:24

4 Smámynd: Ármann Eiríksson

Halló kæra Signý Rós

Takk fyrir að fylgjast með kallinum.  Ég sakna þín líka en fæ nokkuð reglulegar fréttir af þér hjá henni Sóleyju okkar sem sér um að halda hausnum á mér í horfinu.  Þ.e.a.s. hún klippir hann að sjálfsögð, blæs og greiðir.  Hún heldur líka til haga viðtekinni venju sem þú komst á sem er að nudda á honum höfuðskelina samtímis hárþvottinum þannig að fæ ég líklega aukið blóðflæði uppí toppstykkið, skýrari hugsun og oftar en ekki bata á höfuðverk sem gæti  stafað af vöðvabólgu og streitu í vöðvum og taugum.  Náttúrulega algjört dekur!  Hvernig gengur annars námið?  Mér finnst þú alveg geysileg kjörkuð og klár.  Gaman yrði nú að heyra frá þér frekar.  Ertu með bloggsíðu?  Þú gætir líka sent á mig línu;  sigrari@simnet.is .  Gangi þér allt í haginn mín kæra!

Ármann Eiríksson, 17.10.2007 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband