Við John Lennon!

 

Kæru börn, bloggvinir og aðrir einkavinir. 

Takk fyrir notaleg skrif og innsent álit við bloggfærslur mínar sem reyndar eru ekki svo ýkja margar frá því að bloggferill minn hófst.  Í sannleika sagt hef ég verið fremur latur við þessa bloggiðju síðan vinur minn Haukur Þorvaldsson féll í valinn.

Í rauninni hefur margt drifið á daga mína að undanförnu sem varpa hefði mátt út til aflestrar.  Ég, gamli maðurinn varð nú til dæmis sextíu og eins þann 9. október s.l.  Ég varð svolítið undrandi á henni Yoko að bjóða mér og öðrum afmælisbörnum þessa dags ekki til, þó ekki hefði verðið nema látlauss kaffisamsætis til að heiðra minningu Johns á þessum afmælisdegi hans og okkar hinna.  Hún hafði sennilega ekki grænan grun um hvað hún var stödd í fámennu samfélagi okkar Íslendinga þar sem við í alvöru erum ekki svo mörg sem litum fyrst "dagsins" ljós á þessum Drottins degi.  Þannig hefði þetta boð sem aldrei kom til tals, ekki þurft að verða henni svo kostnaðarsamt.  Allavega þegar litið er til kostnaðar af því, að vera flogið hingað í einkaþotu sinni eða einvers leigusala utan út hinum stóra heimi.  Núna er hún líklegast búin að binda þjóðina í þann klafa að láta gefa straum á þessa líka hrikalegu ljóslampa þarna útí Viðey fyrir andvirði milljóna króna um lengri eða skemmri tíma. Hefði ekki verið betra að gefa garðyrkjubændum þennan straum á lampana sína til þess að ljóstillífa og auka afurðir grænmetis og annarra matjurta til lífsbjargar fyrir þjóðina

Ekki varð þessi friðarsúla fyrr send til himna en allt fór í bál og brand í borgarstjórn Reykjavíkur.  Síðast embættisverk Villa var að kyssa þennan boðbera "friðar" sem lýsti hann upp eða blindaði með vasaljósi og stagaðist á orðunum "I love you" og hann á móti sem ekki er vitað hvort Villi skildi frekar en ensku útgáfuna af samningi OR við REI? 

Nú og svo fór allt uppí loft þar sem samstarfsaðilinn í stjórninni reyndist eitrað peð sem sat á svikráðum við hann og gekk til liðs við minnihlutann sem hefur nú hrifsað til sín öll völdin í skjóli nætur eins og alþjóð veit. 

Ekki nenni ég að tíunda frekar ósómann þann sem allir virðast hafa svo sterkar skoðanir á.  Allir sjónvarps og fréttatímar eru troð fullir af skoðunum talsmanna beggja fylkinga og lúnum  augnaþjónum sem sífellt eru tiltækir til þess að tjá sig um stórt og smátt þegar fjölmiðlunum verður mál.  Þarna líðum við fyrir smæðina því úrval álitsbærra einstaklinga er af svo skornum skammti eða öllu heldur af svo fáum að taka.  Mér finnst sannast réttilega gamalt máltæki sem segir að: 

HÁLFUR HEIMURINN ER FULLUR AF FÓLKI SEM GETUR EKKI TJÁÐ SIG

EN HINN HELMINGURINN HEFUR EKKERT AÐ SEGJA EN BLAÐRAR SAMT  ÁN AFLÁTS!

Yfir í allt aðra sálma.

Sonur minn Hermann og tengdadóttirin Birna létu skíra sitt annað barn í gær.  Þessi litli fallegi snáði fékk nafnið Dagur Fannar.  Nú eru barnabörn okkar Sigrúnar orðin 12 talsins og u.þ.b. mánuður í það þrettánda.  Hvílíkt ríkidæmi og gleði sem fylgja svona stundum.   Stundum sem ljóma af birtu sem yfirlýsir dægurþrasið allt sem í gangi er í okkar annars ágæta samfélagi, - þrátt fyrir allt. 

Guði sé lof fyrir slíkar stundir og aðrar viðlíka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Til hamingju með afmælið og barnabörnin! Hún Yoko vinkona bauð bara vildarvinum.
Gott er að nýta orkuna í meira nytsamlega hluti en í ljósasprænuna í Viðey. Það er ekki gott fordæmi að hafa minnismerki sem er svo orkukrefjandi á þessum erfiðu tímum. Mér finnst Regnboginn sem sást um helgina fallegra listaverk og það kostaði ekki eyri og notar enga orku.
Svo finnst mér fáránlegt að borga Villa 7 millur í biðlaun og Snæhólm 2 á meðan það eru ekki til peningar til að borga uppeldisstéttum mannsæmandi laun. Þetta eru eins og greifar og kóngafólk sem er allt leyft.

Heidi Strand, 15.10.2007 kl. 22:38

2 Smámynd: Ármann Eiríksson

Kæra Heidi

Takk fyrir kveðjuna.  Ég met skoðanir þínar mikils.  Þetta biðlauna rugl og starfslokasamningakjaftæði uppá stjarnfræðilegar upphæðir eru atvinnurekendum, framámönnum og þjóðinn til skammar og getur aldrei endað með öðru en ósköpum. Það verða ekki mörg árin þar til þessir nýríku uppar þurfa að fjárfesta í sprengjuheldum "limmum", með launað lífverði í kringum sig og sína. Lítum bara á hvað er að gerast í útlöndum. Viti menn, við erum alltaf 10-15 árum á eftir í öllu.  Meira að segja Dönum sem ráða ekkert orðið við hústöku- og múgæsingafólk sem telur sig vera minnimáttar í samfélaginu og telja sig hafa stöðugra harma að hefna.

Ármann Eiríksson, 15.10.2007 kl. 23:00

3 identicon

Sæll kæri félagi og vinur.Takk fyrir daginn í dag,þó að ég hefði nú viljað hitta þig af öðru tilefni.En svona er lífið og ég er sannfærð um að Haukur félagi okkar hefur það gott og er laus úr prísundinni.En við förum að hittast fljótlega aftur og vertu nú iðinn við bloggið,gott að lesa þínar pælingar.

Björk Andersen (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 20:28

4 Smámynd: Heidi Strand

Þakka þér fyrir Ármann.

Pistlarnir þínir vekja mig til umhugsunar.

Heidi Strand, 17.10.2007 kl. 08:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband