Himneskt er að vera til!

 

Í gær var ég viðstaddur fallega athöfn sem fram fór í Neskirkju, þegar Haukur félagi minn og foringi Vonarinnar var jarðsunginn.  Séra Sigurður Árni Þórðarson, staðarprestur jarðsöng.  Hann fjallaði myndrænt og fallega um samskipti sín við Hauk í lifanda lífi.  Hann glæddi þessa annars stuttu stund bæði með göfugum lýsingum um fagurt mannlíf og djúphyggju sálar þess sem staðið hefur nærri endalokum sínum hér á jörðu um hríð.  

Tónabræður sungu myndugleg; Undir Dalanna sól, Hærra, minn Guð, til þín, Í bljúgri bæn, Drottinn er minn hirðir og að lokum Allt eins og blómstrið eina.  Þá loks hvatti presturinn kirkjugesti til þess að standa á fætur og taka undir í söngnum.  Ég gat ekki lengur á mér setið og lét því gamminn geysa í öllum erindunum þrem.  Ég fann einskonar svölun fyrir útrás tilfinninga minna í söngnum.  Reyndi að gera mitt besta í ljúfsárri minningu, bæði um og til félaga míns sem væntanlega er nú kominn til "Ljósanna Hásala".  

Í fyrsta skipti fékk ég að heyra í tenórnum Braga Bergþórssyni sem söng einsöng í lögunum "Þú styrkir mig" með texta Hjálmars Jónssonar, við lag Rolf Lövland og "Herra mig heiman bú" við ljóð Hallgríms Péturssonar og lag eftir ókunnan höfund frá Nürnberg árið 1534.  Þarna var greinilega á ferðinni ung og upprennandi stjarna sem kom mér þægilega á óvart.  Sannarlega er hér kominn fram á sjónarsviðið ein vonarstjarnan enn sem sannar hvílíku hæfileikafólki þessi litla þjóð okkar getur státað af.  Ég geri fstlega ráð fyrir að vonarsól þessa unga tenórs stefni beint í hádegisstað áður en langt um líður.

Það sem jafnframt gerði mér stundina svo yndislega var litadýrðin frá steindu gluggum kirkjunnar sem hleyptu miðdegissólargeislunum í gegnum sig og vörpuðu óteljandi litbrigðum uppá háan altarisvegginn.  Sjónarspilið var himneskt.  Ég minnist þess ekki að hafa orðið vitni að öðru eins og gat bókstaflega ekki sleppt augum af því myndskeiði sem við blasti.

Mér opinberaðist sú stund og sá dagur þegar ég fermdist, ennfremur þegar ég síðar kraup þarna við altarið á ógleymanlegum fyrri brúðkaupsdegi mínum fyrir rúmum þrjátíu og átta árum. Inní myndskeiðið rann svo aðtburðurinn við sama tækifæri þegar við Erla bárum eldri son okkar til skírnar. 

Mér fannst ég vera staddur í musteri örlaganna.  Allt var svo skýrt og fjöldi myndlíkinga komu fram í hugann á örskots stundu.  Ég skynjaði í rauninni, í himnesku uppnámi bæði upphaf og endi tilverunnar.  Ég fylltist þakklæti fyrir að fá að lifa og bærast hér á jörðinni fyrir gæsku og miskunn höfundar tilverunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll kæri vinur...já ég er sammála þér um það að athöfnin í Neskirkju var afar falleg og alveg í anda vinar okkar.En nú fer að líða að því að við förum að hittast og taka á málum,enda tók Haukurinn loforð af mér og ég stend við það alveg sama hvað.Hafðu það sem allra best Ármann minn..kærleikskveðjur

Björk töffari (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 23:58

2 Smámynd: Ármann Eiríksson

Kæra Björk

Þakka þér fyrir heimsóknina og áminninguna.  Já við verðum að halda uppi merki Vonarinnar og ekki láta deigan síga.  Félagið fór vel af stað undir forystu Hauks og í minningu okkar fallna foringja verðum við að stríða.  Það hefur verið lagður góður grunnur að þessu starfi okkar í þágu krabbameinsgreindra og öllum loforðum skal halda í heiðri. Ég er reiðubúinn strax þegar varaformaðurinn blæs til sóknar (fundar).  Hlakka til að hitta ykkur öll á ný. 

Kærleikskveðja......

Ármann Eiríksson, 20.10.2007 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband