"Hjónið Ármann Eiríksson tvíhleypur, tvístaklingur"

Gaman getur verið að velta fyrir sér íslensku tungutaki.

Upp í hugann kemur orðið “hjón” sem ég hef nú komist að, að sé hvk orð sem getur bæði verið í eintölu og fleirtölu.  Mér hafði aldrei dottið í hug að tjá mig né kynna sem hjón, eða ég hjónið (hvk, et).  Mér er aftur tamara að tala um okkur hjónin (ft) mig og Sigrúnu.  Enda vorum við hjónin (ft) gefin saman í hjónaband.   Þá hljótum við hjónin hvort um sig að vera bundin tryggðum hjónabandsins (et).  Ég hef ekki séð neinn skráðan í símasrá né þjóðskrá sem “Jón Jónsson hjón” af því að fyrrgreindur Jón sé skilgreindur giftur eða í hjónabandi.  Jú annars, Þjóðskráin flokkar fólk eftir “hjúskaparstöðu”.  Þar má nefnilega finna “drengur Guðríðarson”, tveggja ára, - ógiftur.  Í símaskrá aftur á móti má finna ýmsa skráða t.d. Jón Jónsson framkvæmdastjóri eða húsasmíðameistari, rakari (rakari en hver?) eða jafnvel ekki neitt þó svo að á allra vitorði sé að viðkomandi sé hjón og hafi verið giftur til margra ára.

Nei auðvitað gengur þetta ekki því þá gæti einhver Jóninn farið að skrá sig Jón Jónsson hommi eða Stanislaf Karpov pólverji eða Eyður Smári fótboltamaður og allt fer í handaskol.  Skyldi þetta verða bitbein á komandi (eða yfirstandandi) kirkjuþingi þar sem heyrst hefur, að hópur presta hyggist standa uppí hárinu á biskupi og berjast fyrir því að vígsla lesbía og homma verði lögfest eða samþykkt með einhverjum hætti.  Skyldu þá þær og þeir verða gefnar/gefnir saman í hjónaband og verða hjón.  Sigga og Gunna eru orðin hjón svo eru líka þeir Lárus og Tómas orðnir hjón síðan þeir gengu í heilagt hjónaband.

Skrítið er lífshlaupið okkar.  Fyrst erum við skilgreind sem börn en við kynþroskaaldurinn erum við talin vera orðin ungmenni og flokkuð sem einstaklingar (skemmtileg þessi smækkunarending –lingur, hugsið ykkur!) eða einhleypingar.  Þegar við giftum okkur verðum við þá ekki tvíhleypingar eða tvístaklingar?  Allavega verðum við öll á hjólum uppúr því eða hlaupum, lífshlaupið að lífsgæðakapphlaupi því svo ríkt er það í eðli okkar að við náum engan veginn að fanga hin dásamlegu augnablik fyrr en það er orðið um seinan!

Ég get alls ekki fengið mig til þess að drepa tímann eins og svo margir segja og gera.  Mér finnst svo miklu notalegar að verja tíma mínum til hins og þessa.

Guð gefi ykkur góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband