Færsluflokkur: Bloggar
20.10.2007 | 22:53
Spaklega mælt í tímans rás
Heimurinn er ekki Guðdómlegur leikur, hann er guðdómleg örlög.
Að heimurinn, maðurinn, manneskjurnar, þú og ég skuli vera til hefur Guðdómlega merkingu.
Sköpunin, hún kemur yfir okkur, brennur í okkur, breytir okkur, við titrum og föllum í vanmætti og auðmýkt.
Sköpunin, við tökum þátt í henni, við mætum skaparanum, við gefumst honum til þjónustu og fylgdar.
Martin Bubler
Vitrunin stígur ekki fram úr undirvitundinni; hún drottnar yfir undirvitundinni. . . hún gagntekur hinn mannlega þátt sem til staðar er og mótar hann að nýju: Vitrun er samfundur í sinni hreinustu mynd.
Martin Buber
Það er bókstaflega ekki hægt að kenna manninum neitt. Það er aðeins hægt að hjálpa honum að finna þekkinguna sem innra með honum býr, hvaðan sem hún er sprottin.
Galilei
Sem fjaðraður fugl er vonin.
Hún finnur í sál þinni var
og óð sinn orðvana lætur
að eilífu hljóma þar.
Emily Dickinson
Hingað til hafa allar rannsóknir bent til þess að valdafíkn sem hefur í för með sér stöðugar áhyggjur og óróa hvetur stöðugt þann hluta sjálfvirka taugakerfisins sem kallast semjukerfi (örvandi) og deyfir þar af leiðandi utansemjukerfið (róandi). Þetta veldur því svo, streituviðbrögð af völdum adrenalíns eru alltaf til staðar og því minnkar hæfni líkamans til að bregðast við annarri streitu eins og sjúkómi. David C. McClelland prófessor í sálfræði við Harvardháskóla komst fyrir nokkru að því, að einstaklingar sem hafa fyrst og fremst áhuga á völdum höfðu minna af ónæmisglóbúlíni A í munnvatni heldur en þeir sem fyrst og fremst bera umhyggju fyrir öðrum. McClelland skrifar: "Þetta bendir til þess að ein leið til að forðast streitu og sjúkdóma sé að þroskast, að snúa valdafíkninni upp í að hjálpa öðrum. Þroski, kærleikur og hleypidómaleysi draga úr örvun semjukerfisins og hugsanlegum skaðlegum áhrifum þess á heilsuna." Það er ekkert eins vel til þess fallið og hugleiðsla að veita þá rósemi og yfirsýn sem þarf til að öðlast þennan þroska.
Bloggar | Breytt 21.10.2007 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.10.2007 | 17:48
"Hjónið Ármann Eiríksson tvíhleypur, tvístaklingur"
Gaman getur verið að velta fyrir sér íslensku tungutaki.
Upp í hugann kemur orðið hjón sem ég hef nú komist að, að sé hvk orð sem getur bæði verið í eintölu og fleirtölu. Mér hafði aldrei dottið í hug að tjá mig né kynna sem hjón, eða ég hjónið (hvk, et). Mér er aftur tamara að tala um okkur hjónin (ft) mig og Sigrúnu. Enda vorum við hjónin (ft) gefin saman í hjónaband. Þá hljótum við hjónin hvort um sig að vera bundin tryggðum hjónabandsins (et). Ég hef ekki séð neinn skráðan í símasrá né þjóðskrá sem Jón Jónsson hjón af því að fyrrgreindur Jón sé skilgreindur giftur eða í hjónabandi. Jú annars, Þjóðskráin flokkar fólk eftir hjúskaparstöðu. Þar má nefnilega finna drengur Guðríðarson, tveggja ára, - ógiftur. Í símaskrá aftur á móti má finna ýmsa skráða t.d. Jón Jónsson framkvæmdastjóri eða húsasmíðameistari, rakari (rakari en hver?) eða jafnvel ekki neitt þó svo að á allra vitorði sé að viðkomandi sé hjón og hafi verið giftur til margra ára.
Nei auðvitað gengur þetta ekki því þá gæti einhver Jóninn farið að skrá sig Jón Jónsson hommi eða Stanislaf Karpov pólverji eða Eyður Smári fótboltamaður og allt fer í handaskol. Skyldi þetta verða bitbein á komandi (eða yfirstandandi) kirkjuþingi þar sem heyrst hefur, að hópur presta hyggist standa uppí hárinu á biskupi og berjast fyrir því að vígsla lesbía og homma verði lögfest eða samþykkt með einhverjum hætti. Skyldu þá þær og þeir verða gefnar/gefnir saman í hjónaband og verða hjón. Sigga og Gunna eru orðin hjón svo eru líka þeir Lárus og Tómas orðnir hjón síðan þeir gengu í heilagt hjónaband.
Skrítið er lífshlaupið okkar. Fyrst erum við skilgreind sem börn en við kynþroskaaldurinn erum við talin vera orðin ungmenni og flokkuð sem einstaklingar (skemmtileg þessi smækkunarending lingur, hugsið ykkur!) eða einhleypingar. Þegar við giftum okkur verðum við þá ekki tvíhleypingar eða tvístaklingar? Allavega verðum við öll á hjólum uppúr því eða hlaupum, lífshlaupið að lífsgæðakapphlaupi því svo ríkt er það í eðli okkar að við náum engan veginn að fanga hin dásamlegu augnablik fyrr en það er orðið um seinan!
Ég get alls ekki fengið mig til þess að drepa tímann eins og svo margir segja og gera. Mér finnst svo miklu notalegar að verja tíma mínum til hins og þessa.
Guð gefi ykkur góðar stundir.
Bloggar | Breytt 21.10.2007 kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2007 | 00:20
Himneskt er að vera til!
Í gær var ég viðstaddur fallega athöfn sem fram fór í Neskirkju, þegar Haukur félagi minn og foringi Vonarinnar var jarðsunginn. Séra Sigurður Árni Þórðarson, staðarprestur jarðsöng. Hann fjallaði myndrænt og fallega um samskipti sín við Hauk í lifanda lífi. Hann glæddi þessa annars stuttu stund bæði með göfugum lýsingum um fagurt mannlíf og djúphyggju sálar þess sem staðið hefur nærri endalokum sínum hér á jörðu um hríð.
Tónabræður sungu myndugleg; Undir Dalanna sól, Hærra, minn Guð, til þín, Í bljúgri bæn, Drottinn er minn hirðir og að lokum Allt eins og blómstrið eina. Þá loks hvatti presturinn kirkjugesti til þess að standa á fætur og taka undir í söngnum. Ég gat ekki lengur á mér setið og lét því gamminn geysa í öllum erindunum þrem. Ég fann einskonar svölun fyrir útrás tilfinninga minna í söngnum. Reyndi að gera mitt besta í ljúfsárri minningu, bæði um og til félaga míns sem væntanlega er nú kominn til "Ljósanna Hásala".
Í fyrsta skipti fékk ég að heyra í tenórnum Braga Bergþórssyni sem söng einsöng í lögunum "Þú styrkir mig" með texta Hjálmars Jónssonar, við lag Rolf Lövland og "Herra mig heiman bú" við ljóð Hallgríms Péturssonar og lag eftir ókunnan höfund frá Nürnberg árið 1534. Þarna var greinilega á ferðinni ung og upprennandi stjarna sem kom mér þægilega á óvart. Sannarlega er hér kominn fram á sjónarsviðið ein vonarstjarnan enn sem sannar hvílíku hæfileikafólki þessi litla þjóð okkar getur státað af. Ég geri fstlega ráð fyrir að vonarsól þessa unga tenórs stefni beint í hádegisstað áður en langt um líður.
Það sem jafnframt gerði mér stundina svo yndislega var litadýrðin frá steindu gluggum kirkjunnar sem hleyptu miðdegissólargeislunum í gegnum sig og vörpuðu óteljandi litbrigðum uppá háan altarisvegginn. Sjónarspilið var himneskt. Ég minnist þess ekki að hafa orðið vitni að öðru eins og gat bókstaflega ekki sleppt augum af því myndskeiði sem við blasti.
Mér opinberaðist sú stund og sá dagur þegar ég fermdist, ennfremur þegar ég síðar kraup þarna við altarið á ógleymanlegum fyrri brúðkaupsdegi mínum fyrir rúmum þrjátíu og átta árum. Inní myndskeiðið rann svo aðtburðurinn við sama tækifæri þegar við Erla bárum eldri son okkar til skírnar.
Mér fannst ég vera staddur í musteri örlaganna. Allt var svo skýrt og fjöldi myndlíkinga komu fram í hugann á örskots stundu. Ég skynjaði í rauninni, í himnesku uppnámi bæði upphaf og endi tilverunnar. Ég fylltist þakklæti fyrir að fá að lifa og bærast hér á jörðinni fyrir gæsku og miskunn höfundar tilverunnar.
Bloggar | Breytt 20.10.2007 kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.10.2007 | 18:20
Við John Lennon!
Kæru börn, bloggvinir og aðrir einkavinir.
Takk fyrir notaleg skrif og innsent álit við bloggfærslur mínar sem reyndar eru ekki svo ýkja margar frá því að bloggferill minn hófst. Í sannleika sagt hef ég verið fremur latur við þessa bloggiðju síðan vinur minn Haukur Þorvaldsson féll í valinn.
Í rauninni hefur margt drifið á daga mína að undanförnu sem varpa hefði mátt út til aflestrar. Ég, gamli maðurinn varð nú til dæmis sextíu og eins þann 9. október s.l. Ég varð svolítið undrandi á henni Yoko að bjóða mér og öðrum afmælisbörnum þessa dags ekki til, þó ekki hefði verðið nema látlauss kaffisamsætis til að heiðra minningu Johns á þessum afmælisdegi hans og okkar hinna. Hún hafði sennilega ekki grænan grun um hvað hún var stödd í fámennu samfélagi okkar Íslendinga þar sem við í alvöru erum ekki svo mörg sem litum fyrst "dagsins" ljós á þessum Drottins degi. Þannig hefði þetta boð sem aldrei kom til tals, ekki þurft að verða henni svo kostnaðarsamt. Allavega þegar litið er til kostnaðar af því, að vera flogið hingað í einkaþotu sinni eða einvers leigusala utan út hinum stóra heimi. Núna er hún líklegast búin að binda þjóðina í þann klafa að láta gefa straum á þessa líka hrikalegu ljóslampa þarna útí Viðey fyrir andvirði milljóna króna um lengri eða skemmri tíma. Hefði ekki verið betra að gefa garðyrkjubændum þennan straum á lampana sína til þess að ljóstillífa og auka afurðir grænmetis og annarra matjurta til lífsbjargar fyrir þjóðina
Ekki varð þessi friðarsúla fyrr send til himna en allt fór í bál og brand í borgarstjórn Reykjavíkur. Síðast embættisverk Villa var að kyssa þennan boðbera "friðar" sem lýsti hann upp eða blindaði með vasaljósi og stagaðist á orðunum "I love you" og hann á móti sem ekki er vitað hvort Villi skildi frekar en ensku útgáfuna af samningi OR við REI?
Nú og svo fór allt uppí loft þar sem samstarfsaðilinn í stjórninni reyndist eitrað peð sem sat á svikráðum við hann og gekk til liðs við minnihlutann sem hefur nú hrifsað til sín öll völdin í skjóli nætur eins og alþjóð veit.
Ekki nenni ég að tíunda frekar ósómann þann sem allir virðast hafa svo sterkar skoðanir á. Allir sjónvarps og fréttatímar eru troð fullir af skoðunum talsmanna beggja fylkinga og lúnum augnaþjónum sem sífellt eru tiltækir til þess að tjá sig um stórt og smátt þegar fjölmiðlunum verður mál. Þarna líðum við fyrir smæðina því úrval álitsbærra einstaklinga er af svo skornum skammti eða öllu heldur af svo fáum að taka. Mér finnst sannast réttilega gamalt máltæki sem segir að:
HÁLFUR HEIMURINN ER FULLUR AF FÓLKI SEM GETUR EKKI TJÁÐ SIG
EN HINN HELMINGURINN HEFUR EKKERT AÐ SEGJA EN BLAÐRAR SAMT ÁN AFLÁTS!
Yfir í allt aðra sálma.
Sonur minn Hermann og tengdadóttirin Birna létu skíra sitt annað barn í gær. Þessi litli fallegi snáði fékk nafnið Dagur Fannar. Nú eru barnabörn okkar Sigrúnar orðin 12 talsins og u.þ.b. mánuður í það þrettánda. Hvílíkt ríkidæmi og gleði sem fylgja svona stundum. Stundum sem ljóma af birtu sem yfirlýsir dægurþrasið allt sem í gangi er í okkar annars ágæta samfélagi, - þrátt fyrir allt.
Guði sé lof fyrir slíkar stundir og aðrar viðlíka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.10.2007 | 19:45
Farðu í friði, kæri vinur!
Fallinn er nú frá góður drengur, - eldhuginn, baráttujaxlinn og hugsjónamaðurinn Haukur Þorvaldsson.
Haukur var einn af okkur, stofnendum Vonarinnar, hagsmunasamtaka krabbameinsgreindra. Hann var upphafsmaðurinn og hugmyndasmiðurinn að félagsstofnuninni og hlaut einróma kosningu sem fyrsti formaður hennar á stofnfundi félagsins 30. janúar s.l.
Kynni okkar Hauks hófust í Ljósinu en Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Þar bar Haukur höfuð og herðar yfir alla eins og víðast hvar þar sem hann kom. Hann var þessi einlægi, glaðværi og brosmildi einstaklingur sem hvarvetna naut verðskuldaðrar athygli.
Ekki var hann alveg laus við smá stríðni þegar sá gállinn var á honum. Skrif hans um hagsmunamál krabbameinsgreindra og vankanta í heilbrigðiskerfinu sem birtust í dagblöðunum gátu verið beitt og stundum svolítið hvatvís þegar hann vildi svo vera láta.
Hann var einungis ný orðinn 49 ára síðan 15. september þegar meinin tóku loks að yfirbuga og lögðu að velli þennan fjallmyndarlega víking og hugrakka baráttumann, þann 2. október s.l.
Haukur dvaldi síðustu vikurnar á líknardeild Landspítalans. Hann kvaðst sjálfur í upphafi ekki ætla að vera þar lengi. Reyndar trúði hann mér fyrir því að hann ætlaði að vera kominn út fyrir 15. september sem ég vissi þá ekki, að væri afmælisdagurinn hans. Þegar það gekk ekki upp sá ég fljótt hvernig af honum dró og vonin þvarr þó svo hann væri ekkert að flagga því við okkur hin.
Við félagarnir í Voninni stöndum hnípin eftir og talsvert ráðvillt. Haukur var nefnilega sá sem dró vagninn og blés eldi í glæðurnar. Það var hann sem bjó yfir eldmóðnum og hreif okkur hin með og hvatti til dáða með áhuga sínum og einbeittum vilja til þess að láta gott af sér leiða fyrir þá sem þurfa að líða vegna veikinda sinna og síðan aumkvunarverðra kjara þeirra í íslensku alsnægtasamfélagi.
Við Haukur áttum góða vikudvöl saman að Sólheimum í Grímsnesi í ágúst á s.l. ári í höfðinglegu boði líknar- og vinafélagsins Bergmáls fyrir krabbameinsgreinda sjúklinga. Þar skeggræddum við um margt og þá ekki hvað síst um hugmyndir hans að stofnun hagsmunasamtaka krabbameinsgreindra sem áttu þá hug hans að mestu. Hann kvaðst endilega vilja fá mig í lið með sér ásamt fleirum sem hann hafði viðra hugmyndina við. Hann sagðist vilja fá mig með sér í stjórn þar sem ég gæti tekið stöðu ritara, m.a. til þess að ég skyldi jú hafa nóg að gera á fundum og til þess að fyrirbyggja að ég kjaftaði ekki allt og alla í kaf. Og svo hló hann sínum dillandi stríðnishlátri og klappaði mér á öxlina til að fyrirbyggja það, að mér yrði ekki misboðið.
Hjá okkur félögum og vinum hans er nú stórt skarð fyrir skildi. Þó er það skarð einungis glufa í samanburði við þann missi sem kona hans, Björg Jóhannesdóttir og sonur þeirra Björgvin Margeir sem verður átta ára á laugardaginn 6. október, þurfa að lifa við. Ennfremur eldri börnin hans, þau; Agnes Björk, Hermann Haukur og Þorvaldur sem og aðstandendur og nánir vinir allir.
Þeim votta ég mína dýpstu samúð og bið algóðan Guð að hugga þau og styrkja í erfiðri raun.
Lokaorð mín verða því tilvitnun í 3 erindi sálmsins "Drottinn vakir".
Drottinn vakir, Drottinn vakir
daga' og nætur yfir þér.
Blíðlynd eins og besta móðir
ber hann þig í faðmi sér.
Allir þótt þér aðrir bregðist,
aldrei hann á burtu fer.
Drottinn elskar, - Drottinn vakir
daga' og nætur yfir þér.
Löng þá sjúkdómsleiðin verður,
lífið hvergi vægir þér,
Þrautir magnast, þrjóta kraftar,
þungt og sárt hvert sporið er,
honum treystu, hjálpin kemur,
hann af raunum sigur ber.
Drottinn elskar, - Drottinn vakir
daga' og nætur yfir þér.
Þegar æviröðull rennur,
rökkvar fyrir sjónum þér,
hræðstu eigi, hel er fortjald,
hinum megin birtan er.
Höndin, sem þig hingað leiddi,
himins til þig aftur ber.
Drottinn elskar, - Drottinn vakir
daga´og nætur yfir þér.
Sigurð Kristófer Pétursson.
Bloggar | Breytt 20.11.2007 kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.9.2007 | 22:10
Þakkaðér ógeðslega!
Ja hérna, tíminn líður!
Heil vika og engu varpað á skjáinn!
Ég er að velta því fyrir mér hvort ég sé nokkuð efni í "bloggara".
Spurningin er hvort að þetta tjáningarform henti mér nokkuð?
Stóra spurningin er líka hvort ég sé nokkuð tilbúinn að opna tilfinningabuffetið mitt uppá gátt?
Á ég að vera að velta öðrum uppúr krabbameins upplifun minni. Hverjum er ekki sama um sextugan kall, hvort hann lifir deginum, árinu eða áratugnum lengur eða skemur?
Auðvitað er miklu eðlilegra að sína tilfinningar með ungu fólki sem er að heygja alvarlegt veikindastríð í blóma lífsins. Eigandi börn og barnabörn skil ég svo miklu betur hvað það yrði mér mikil kvöl að þurfa að horfa á eitthvert þeirra berjast við alvarlega, lífshættulega sjúkdóma. Þá vildi ég nú miklu fremur vilja láta mitt í staðinn fyrir að upplifa pínu þeirra með einum eða öðrum hætti, ætti ég þess kost.
Nú jæja, þrátt fyrir ýmislegt neikvætt sem ber fyrir sjónir þá eru nú jákvæðu tilvikin oftast miklu fleiri. Maður bara tekur þau sem sjálfgefinn hlut og hirðir ekki um að þakka Guði fyrir dásemdir lífsins. Fremur hefur maður tamið sér í gegnum árin, að biðja sí og æ um allt mögulegt.
Um daginn var ég fyrir aftan ungann mann sem var fyrir framan mig að stíga uppí strætisvagn. Ég fylgdi nokkuð þétt í kjölfar hans enda vagninn að fara að fara. Skyndilega rétti drengurinn út hendina og "selbitaði" eða skaut hálfreyktri sígarettu af fingrum sér útí bláinn. Því miður var ég bara einmitt staddur þarna útí blánum en sígarettan sveif rétt fyrir sjónum mínum. Heppinn ég, að fá hana ekki á milli augnanna eða í annaðhvort augað. Líklegast hefði ég nú fengið að halda öðru ef svo hefði farið (heppinn!). Þar sem ég hopaði við eldraun þessa þá slapp ég líka við hrákaslettu þess unga manns sem þurfti greinilega líka að losa sig við slímið úr kynnholunum og hálsinum áður en hann steig um borð. Hugsið ykkur, - tvöföld heppni hjá mér að fá ekki hrákann í andlitið líka. Ég man það nú, að ég hefði getað þakkað Guði fyrir lánið.
Oft stend ég mig að því að líta niður fyrir fætur mér á gangi og fyllist stundum uppgjöf yfir öllum sígarettustubbunum og tyggjóklessunum fyrir framan Fjörð og fætur mínar. Í huga mér verða til hugsanir eins og "umhverfissvín og umhverfissóðar". Hvernig uppeldi hafa þessir einstaklingar fengið sem fara svona að ráði sínu, spyr ég mig og frá hverskonar heimilum kemur svona fólk?
"Sagt er að refurinn höggvi sjaldnast nærri greni sínu".
Líklega gerir fólk þetta fremur fyrir framan Fjörð, veitingastaði og strætóstoppustaði en fyrir framan heimili sín, - Guði sé lof fyrir það og þeirra nánustu.
Ég er byrjaður að temja mér að horfa fremu uppí loftið þessa dagana og dást að fuglum háloftanna og laufi trjánn í allri sinni haustlitadýrð nú um þessar mundir.
Ég fór að finna að málfari ungra samverkamanna minna sem mér finnst orðið fyrir neðan allar hellur. Lýsingarorðin sem notuð eru til að hefja athafnir og hluti til skýjanna eru t.d.:
Takk fyrir æðislega.
Ég fór að sjá ógeðslega góða mynd í bíó.
Ég tók þátt í brjálæðislega skemmtilegu gæsapartíi.
Er talvan þín Ókey?
Og svo er þágufallssýkin komin á kreik eins og hún var kölluð í mínu ungdæmi og þótti sko ekki par fín, dæmi;
Spáðu í því?
Mundi nokkur segja:; spáðu í mér eða spáðu í henni!
Ég heyrði um mann sem sagði kunningja sínum frá því að; hann hefði keypt alveg brjálaða meri?
Ég hefði nú líklegast spurt manninn, hvort hann hefði lent á útsölu gallaðra hrossa/mera eða hvort ekki hefði verið til óbrjáluð hross þarna?
Þegar ég tók að lesa þetta yfir sem ég var að skrifa þá fannst mér þetta e.t.v. svolítið fyndið og líklegast er það einmitt þannig sem maður á að bregðast við samræðum af þessu tagi - eða hvað?
Bloggar | Breytt 28.9.2007 kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.9.2007 | 23:07
Dittinn og dattinn
Undarlegt er að vera orðinn "bloggtengdur". Mér finnst á stundum ég vera að svíkjast um ef ég finn mér ekki stund til þess að setjast niður og skrifa eitthvað og senda útá öldur ljósvakans. Mér finnst "bloggtengingin" jafnvel vera orðin að einhverskonar harðstjóra sem hvíslar sífellt; ætlarðu ekki að skrifa nokkrar línur í dag fyrir fólkið þarna úti?
Kastljósið fangaði athygli mína í kvöld eins og svo oft áður. Viðtalið við Þórarinn Tirfingsson um fíkla og getspá um fjölda þeirra sem sprauta sig með hörðum efnum og hvort hér sé að skella á bylgja HIV smitaðra fannst mér ógnvekjandi. Einkum í skugga þeirrar alvöru að verið var að fanga einstaklinga á Fáskrúðsfirði í dag sem reyndu að koma miklu magni eiturlyfja inní landið. Mennirnir eru taldir tengjast einu umfangsmesta fíkniefnasmygli sem upp hefur komist hér á landi, en hald var lagt á 50 - 60 kíló af amfetamíni sem smyglað hafði verið til landsins með skútu til Fáskrúðsfjarðar frá Danmörku um Færeyjar. Ég fagna árvekni fíkniefnalögreglunnar í þessu landi og spurði sjálfan mig jafnframt; skyldi Þórarinn Tirfingsson vera búinn að fá veitta fálkaorðuna fyrir langa og stranga baráttu í þágu þeirra sem misstgið hafa sig í þessu lífi.
Fyrr í vikunni las ég í Morgunblaðinu um dómsúrskurð þar sem Hæstiréttur Íslands mildaði fjögurra ára dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem nauðgaði konu á mjög hrottafenginn hátt á síðasta ári. Við áfríun dæmdi Hæstiréttur manninn í 3 og ½ árs fangelsi þar sem hann á aðeins að greiða konunni eina milljón í skaðabætur. Hæstiréttur bætti við sök mannsins vegna annarra mála sem upp komu en dró úr refsingunni! Ég held að dómskerfi okkar Íslendinga sé ekki alveg að standa sig.
Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt fertugan karlmann í 13 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stela úrbeinuðu hangikjötslæri úr verslun Bónus í Hveragerði í janúar á þessu ári. Verjandi mannsins sagði fyrir dómnum, að það yrði veruleg röskun á lífi fjölskyldu mannsins og þeim árangri, sem hann hefði náð við að snúa aftur til betra lífs, yrði honum gert að sæta fangelsi fyrir brotið. Dómurinn tók undir þetta og sagði ljóst, að fangelsisvist myndi kollvarpa því starfi sem maðurinn hafi þegar hafið. Afplánun refsingar myndi hvorki þjóna almannahagsmunum, hagsmunum ákærða né refsivörslukerfisins.
Hver skyldi refsiramminn vera fyrir að stela þremur lærum úr Bónus? Skyldi það jafngilda nauðgun með hrottafengnum hætti? Eða skyldi maðurinn fá magnafslátt samkvæmt gjaldskrá dómaranna eða með tilliti til almannahagsmuna, hagsmuna ákærða eða refsivörslukerfisins? Vegir dómaranna eru víst órannsakanlegir enda skrítinn fugl kanínan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.9.2007 | 16:38
Ekkert líf ...... !
Ekkert líf eftir fimmtugt, hvað þá sextugt!
Erfitt getur reynst að vera krabbameinsgreindur og standa frammi fyrir ungmenni sem syrgir nákominn jafnaldra sem fallinn er frá í blóma lífs síns.
Ég lenti t.d. í því að hugga eitt slíkt, ungann vinnufélaga minn sem var yfirkominn af sorg vegna aðstæðna af þessu tagi.
Eitt af því versta sem sagt var í hita tilfinninganna og kom fremur illa við kaunin á mér gamlingjanum var;
"- hugsaðu þér óréttlætið -",
af hverju tók Guð ekki einhvern gamlan karl eins og Davíð Oddsson t.d. (sem þá hafði nýverið greinst með krabbamein) í staðinn.
Auðvitað gat ég ekki fengið af mér að benda á að ég væri nú sennilega tveim árum eldri en hann og hefði því frekar átt að fara til himna í nefndu tilviki.
Þetta minnir mann á að ungmenni líta oft á fimmtuga, hvað þá sextuga karla sem örvasa gamalmenni með slokknaðar tilfinningar og lífslöngunina búna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2007 | 21:36
Reynsla krabbameinssjúklings
Fyrirlestur hjá Krabbameinsfélagi Hfj. 24.10.2006.
Reynslusaga krabbameinssjúklings
Raunveruleg, - upphafleg kynni mín af krabbameini hófust í rauninni fyrst af skelfinlegri alvöru árið 1991. En þá reyndist fyrri eignkona mín komin með bullandi krabbamein en þó eiginlega ekki því hún var bara vansæl og hrikalega illa haldin allt það ár í linnulausum rannsóknum, þræðingum, speglunum og loks uppskurði yfir þverar bringsmalirnar, að sjálfsögðu til þess að geta komist í rauninni; "ofaná eða að" brisinu, stungið það út með holnálum til þess að nálgast einskonar þræði sýna sem senda átti í ræktun og nákvæma greiningu.
Allt þetta ár var búið að vera samfellt veikindastríð án þess að nokkur fynndist ástæðan.
Erlu leið hörmulega illa bæði á sál og líkama. Hún gat naumast borðað sér til nokkurs gagns, kom varla niður nokkrum mat nema þá helst einhverju sem kallaðir voru orkudrykkir sem hún gat haldið mis lengi niðri, yfirleitt fyrir harðfylgi, oftast með augun full af tárum.
Það er ósköp lítil bót fársjúkri manneskju að láta lækna sína telja sér trú um að ekkert sé að eða sjáanlegt að manni (Ásgeir Theodorsson og Jóhannes Gunnarsson) og geta samt ekki haldið niðri fæðunni og hvergi á sér heilli tekið fyrir verkjum og ógleði. Eftir uppskurðinn stóra sem við fengum reyndar alldrei neinn botn í né frekari niðurstöður úr var að lokum orpinn saman með vírklemmum eins og súpukjötspokarnir í Fjarðarkaupum. Hann tók smátt og smátt að lokast fremur en gróa á ská og skjön. Sannarlega ljótaststa handbragð sem ég hef séð framkvæmt á líkama nokkurrar manneskju. Sennilega var hún þá búin að fá flokkunina "dauðvona"?
Þetta var um það leyti sem þá 16 ára dóttir okkar ól sitt fyrsta barn á fæðingarheimili Reykjavíkur og konan mín sem farin var að bíða eftir sínu fyrsta ömmubarni grét hjálparvana uppá Borgarspítala vegna ástands síns og bjargarleysis á jólunum 1991. það var fátt fólk á spítalanum, flestir höfðu verið sendir heim sem mögulega var hægt að koma í hjólastóla, sjúkrabílinn eða einkabíla með hjálp aðstandenda því hátíðin var að ganga í garð.
Barnabarnið okkar sem reyndist yndisleg stúlka, fæddist á jóladag og varð 16 ára þann 25. desember 2006. Hún var sannarlega sú sem beðið var eftir í þann tíma, tilhlökkunarefnið okkar ömmu, barnagælunnar, fóstrunnar, forstöðukonunnar á Smáralundi, Erlu Gestsdóttur sem hafði helgað lífi sínu í að gæta og ala önn fyrir börnum annarra fram að þessu.
Hið raunverulega krabbamein hennar fannst lokst eftir umkvartanir mínar og hávaða mikinn í marsmánuði fyrr á árinu. Þegar ég hafði gert mér leið uppá St. Jósefsspítala og rætt þar við annan læknanna hennar um að nú væri nóg komið og þó fyrr hefði verið,að veikburða ástand hennar gæti ekki gengið svona lengur, það yrði að fara að finnast einhver lausn. Því það sem ég horfði uppá þegar hér var komið gat ekki verið með nokkru móti eðlilegt né boðlegt nokkurri lifandi manneskju, lyfja eða aðgerðalaust. Það var þá fyrst sem hún var tekin inn á St. Jósefsspítalann rétt einn ganginn enn, þrædd og sótt fleiri sýni í brisið sem að þessu sinni reyndist minna bólgið en oft áður og því var nú hægt komast inní það að þessu sinni og greina nú þau sýni sem vörpuðu ljósi á sannleikann sem reyndist eins og flesta var farið að gruna, - illkynja krabbamein.
Hugsið ykkur; ég hafði það á tilfinningunni að Erlu væri fremur létt en hitt í byrjun. E.t.v. af því að hún var búin að berjast svo lengi án þess að nokkur viðurkenning né staðfesting fengist á að nokkuð væri í rauninni að henni. (Ég ímyndaði mér að henni hafi langað til þess að hrópa; Jæja, sájiði bara, - hvað sagði ég ekki"). En svo fór hún að gráta og endurtók lengi þessa hræðilegu setningu; ég vil ekki deyja, ég vil ekki deyja ..................... .
Ég var kallaður til og eftir langa, langa niðurlæjandi bið þar sem annar tveggja læknanna sem höfðu annast hana hafði kallað mig til, stikaði nú stórum og löngum skrefum yfir fæturnar á mér þar sem mér hafði verið vísað til sætis á þröngum spítalaganginum. Einum 10 - 20 sinnum strunsaði hann við fætur mér án þess svo mikið sem gefa mér auga eða yrða á mig frekar en ég væri skítur útí horni.
Ég hrökk við þegar hann loks stansaði og kallaði upp nafnið mitt og bauð mér að koma inn í skonsu sína sem rétt rúmaði borðræfil, tvö stólprik og okkur tvo sitjandi hvorn á móti öðrum.
Hann leit loks uppá mig og sagði ástandið alvarlegt.
Konan þín er með krabbamein í briskirtli en það hefði því miður ekki greinst fyrr en nú þrátt fyrir útmiðaða leit um langa hríð.
Okkur þykir það leitt, -
afskaplega leitt.
"Og hvað gerið þið við því hér" tókst mér að spyrja, ég held bara nokkuð mannalega?
Það er nú fremur fátt til ráða, var svarið, eftir nokkra þögn ! Við getum því miður nánast ekkert gert því þessi sjúkdómur eins og hann er genginn er bókstaflega kortlagður og ferlið er þekkt. Þarna er þetta nú búið að ná útbreiðslu og trygga rótfestu. Síðan sækir þetta hratt í nærliggjandi líffæri og endar svo í lifrinni og þá er þetta líka búið.
Ég man hvað ég snögg reiddist, enda illa upplagður af svo mörgum ástæðum og kringumstæðum að undanförnu. Lái mér það hver sem vill!
Ertu að segja mér, að hún sé að deyja?
Já, var svarið,
því verður víst ekki neitað !
Ég man hvernig ég hreytti útúr mér orðunum;
og hvað áttu við með því; hvað telurðu hana eiga langt eftir í árum, - mánuðum eða ertu e.t.v. að tala um í vikur?
Þögn.........
Já því miður, hún gæti átt eftir 2 - 3 mánuði !
Ég varð orðlaus og "frosinn".
Enda mun ég aldrei gleyma þessari stund þar sem ég hafði mesta þörf fyrir að biðja lækninn að fara út og leyfa mér að fá að gráta í friði. En uppeldi mitt stóð ennþá í vegi fyrir því eins og öðrum af minni kynslóð!
Hermann, yngri sonur minn spurði mig eitt sinn skömmu eftir að mamma hans dó; "fannst þér ekkert vænt um mömmu?"
Hvað meinarðu, spurði ég að bragði?
"Nei, ég hef aldrei séð þig gráta eftir að hún dó !"
Læknirinn hafði nokkuð rétt fyrir sér að þessu sinni.
Hún dó 28. júní 1991 á 43. aldursári, u.þ.b. sem ömmubarnið, augasteinninn hennar Alfa litla Karitas varð ½ árs.
Jæja, hvað haldið þið svo?
Sjaldnast er ein báran stök eins og sagt er;
Það henti mig þá líka að lenda í tölu þeirra fjölmörgu sem greindir eru með krabbamein. þetta uppgötvaðist fyrst árið 1999. 7 árum eftir að Erla mín lést. Leitað var orsaka þess að blæðingar voru orðnar tíðar með hægðum.
Ástæðan reyndist stafa frá "appelsínustóru" æxli sem virtist hafa vaxið útúr garnveginum og tekið uppá því að lifa þar "sjálfstæðu lífi" í kviðarholinu.
Þegar þessi óboðni gestur hafði verið numin á brott með skurðaðgerð kom í ljós að um var að ræða fremur sjaldgæft, illkynja krabbameinsæxli sem sérfræðingar töldu staðbundið og minni líkur en meiri væru á að viðlíka hæfi sig að nýju með sama eða svipuðum hætti.
Ég náði því aldrei að verða neitt sérstaklega kvíðinn né áhyggjufullur útaf þessu sem virtist allt svo óraunverulegt og útfrá þeim líkum sem mér höfðu upphaflega verið gefnar. Ég var settur í vöktun eða á stífa eftirlitsáætlun með blóðsýna- og sneiðmyndatökum á nokkurra vikna fresti.
Tveimur árum síðar eða á árinu 2001 þegar til stóð að fara að sleppa af mér hendinni gerðist nokkuð óvænt. Á níu stöðum í lifrinni voru farnir að greinast misstórir blettir sem í ljós kom við ástungu og nánari skoðun, að væru æxlismyndanir sömu tegundar og fyrr er getið.
Þetta voru slæm tíðindi fyrir mig, minnugur veikinda fyrri konu minnar og móður þriggja barna okkar sem nú eru vaxin úr grasi.
Þegar krabbamein hennar greindist loks var okkur báðum blákalt tjáð að hennar mein myndu vinna sitt verk hratt og markvisst, ferlið væri nánast til kortlagt eins og ég hef áður vikið að og einkennin væru með þeim hætti að það breiddist skjótt um nærliggjandi líffæri án þess að nokkuð fengist við ráðið.
Og svo myndi það enda í lifrinni og þar með yrði stríðið yfirstaðið.
Ég sá sæng mína útbreidda !
Réttur maður á réttum tíma
Fyrri greining ásamt aðgerð náðu ekki að brjóta mig niður þá en þessi ný uppgötvuðu tíðindi settu mig á allt annan stað í tilverunni. Sýndarheimur karlmennskunnar sem ég hafði verið alinn upp í og tileinkað mér eins og aðrir af minni kynslóð var brotinn. Ég kunni illa að gráta nema þá helst þegar enginn sá til og koddinn var minn eini huggari og vitni "veikleika minna". Nú eða þegar ég lifði mig svo inní áhrifamiklar bíómyndir sem hittu mig illa í myrkrinu.
Þá hefur líka vasaklúturinn oft bjargað málum á loka stundu með því að þerra augnkrók eða taka við snöggri snýtu rétt fyrir "The end".
Skömmu eftir greiningu æxlanna í lifrinni bárust fregnir af nýju lyfi sem væri hugsanlega rétt ókomið á markað. Ég fékk, að mér skildist að hefja töku þessa lyfs sem reynsluþegi nr. 3.
Og viti menn, það virtist ná tilætluðum árangri skömmu síðar.
Það stöðvaði vöxt æxlamyndananna níu sem voru komnar vel á skrið.
Ég hafði skömmu áður sótt tíma í eðlis-, efna- og líffræði á sömu önninni í Öldungadeild MH og vissi því vel hvernig frumur vaxa og verða til. Þær æxlast nefnilega kerfisbundið og mynda vefi og meinvörp.
Sú fyrsta sem verður til skiptir sér fljótt í tvær, sem verða brátt að fjórum og fjórar að átta sem verða svo sextán og þrjátíu og tvær o.s.frv. Einskonar klasasprengja sem breyðist út með síauknum hraða. Ég hef það líka oft á tilfinningunni að vera einskonar gangandi tímasprengja (hryðjuverkamaður).
Rúmu ári eftir að ég hóf reglubundna inntöku þessa lyfs sagði einn læknanna sem reyndar er góðkunningi minn;
"Dj..... ertu heppinn maður".
Mér varð á að spyrja hvað ertu að meina að hafa fengið þennan bölvaða krabba? Nei, hugsaðu þér sagði hann ef þú hefðir fengið hann í þig ári fyrr og lyfið ekki komið á reynslumarkað þá værir þú bara dauður, - vinurinn!
Sannarlega hafði hann rétt fyrir sér en því miður eru sennilega ekki allir jafn "heppnir".
Aukaverkanirnar
Fyrir ári fékk ég að fara í hvíld frá lyfinu kærkomna í tilraunaskyni. Þetta reyndist allt í stakasta lagi í níu mánuði, meinvörpin virtust beinlínis liggja í dvala þennan tíma en svo voru þau líka vöknuð. Næstsíðasta myndartaka opinberaði að illfyglin væru vöknuð og farin af stað enda er ég kominn á krabbameinslyfin á ný.
Lyfin sem við sjúklingar verðum að taka til að lifa af eru sjaldnast án aukaverkana eða óþæginda. "Við tökum þau nú samt því öll viljum við halda í líftóruna, verða gömul þó engin vilji beinlínis vera gamall - skrýtið".
Þess vegna látum við víst flest yfir okkur ganga og berum harma okkar yfirleitt í hljóði. Tilfellin eru margbreytileg og verða seint öll upp talin. Flest höfum við þá samsömun að þekkja dæmi um; sljóleika, síþreytu, minnisleysi, beinverki, andvökur eða svefn sem hættur er að veita hvíld, liðverki, vanlíðan af samgróningum í kjölfar uppskurða, kvíðaraskanir, depurð, ótta, félagsfælni, kjarkleysi, yfirþyrmandi áhyggjur og óteljandi þrautir og vanlíðan aðra sem of langt yrði upp að telja. Fyrrgreindir fylgikvillar kalla oftar en ekki á önnur hjálparlyf sem e.t.v. virka en valda oftar en ekki einhverskonar annari óáran sem setja líf okkar í ólýsanlegan vítahring sem enginn skilur nema við eða þau sem reynt hafa.
Vangaveltur - stolið, stælt og skrumskælt!
Á átjándu og nítjándu öld gerðu margir læknar sér ljóst að krabbamein hneigist til að fylgja í kjölfar sorgar eða erfiðleika, -
einkum hjá þeim sem átt hafa jafnframt við þunglyndi að stríða.
Ég hef lesið það, að dæmigerðir krabbameinssjúklingar sem farið hafa á mis við innilegt samband við foreldra í bernsku og kærleika eigi mun erfiðar við að byggja upp bjargfasta trú á eigin verðleika og hæfni til að sigrast á erfiðleikum.
Þegar slíkir einstaklingar vaxa úr grasi verða þeir oftar en ekki fremur úthverfir, ekki vegna þess að þeir laðist svo mjög að öðrum heldur fremur vegna þess að þeir sækja í og verða háðir því að nálgast einhvern sem veitir þeim staðfestingu á því að vera einhvers virði.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að unglingsárin hafa oftar en ekki orðið krabbameinssjúklingum enn erfiðari en öðrum táningum. Sýnt hefur verið fram á að margir hafa átt erfitt með að stofna til vináttu nema rétt á yfirborðinu og það leitt til óþolandi einmannakenndar og styrkti fyrri tilfinningu þeirra að skorta manngildi. Þannig fólk hneigist oft til að líta á sjálft sig sem heimska, klunnalega, lítilfjörlega og lélega í leikjum og íþróttum þrátt fyrir talsverð afrek sem verða bekkjarfélögunum oft öfundarefni. Um leið elur slíkur einstaklingur oft í brjósti mynd af sjálfum sér eins og hann er "í raun og veru", þar sem hann er sérlega hæfileikaríkur og ætlað að vinna mannkyninu mikið gagn með nokkuð óljósum en fágætum afrekum.
Einhvern tíma, oftast fyrir eða rétt eftir tvítugt, eru líkur á að krabbameinssjúklingur hafi orðið ástfanginn eins og annað fólk, eignast einn eða tvo nána vini, fengið vinnu sem hann var ánægður með eða höndlaði á einn eða annan hátt í meiri eða minni hamingju, sem valt á því sem var fyrir utan hann sjálfan. Hann fékk ekki séð að neitt af þessu hafi getað verið honum sjálfum að þakka. Þetta virtst allt vera einskær heppni og meira en hann átti skilið, en sem stendur gengur honum allt í haginn. Þegar hann var orðinn fullorðinn einkenndi hann enn lélegt sjálfstraust og aðgerðaleysi þegar um var að ræða eigin þarfir, en hann var mjög trúr og einlægur þeirri manneskju, málefni eða félagsskap sem hann helgaði líf sitt.
Fyrr eða síðar, kannski eftir fáein ár og kannski eftir nokkra áratugi, hvarf hið ytra inntak lífsins. Vinirnir flyktust á brott, starfið var lagt niður eða veitti minni ánægju, konan sem hann elskaði fór frá honum eða dó. Þessar breytingar verða yfirleitt hjá öllum og eru alltaf sársaukafullar, en fyrir þann sem hefur sett allt sitt traust á það sem bregst verða þær þungbær ógæfa. En það sýnist sjaldnast vera svo. Öðrum finnst hann "taka þessu ótrúlega vel", en innra með honum er tóm. Hann verður enn gagntekinn af efasemdum um eigin verðleika og finnst ekki lengur að lífið hafi neina þýðingu.
Geðrænt niðurrif eða sjálfshjálp
Það sem einkennir þunglyndi má oftast rekja til skorts á kærleika og tilgangi í lífinu frá sjónarmiði hins þunglynda. Sjúkdómur verður þá oft leið til að flýja útúr lífsmunstri sem virðist innihaldslaust og slítandi. Í þessari merkingu mætti ef til vill kalla hann hugleiðslu eða einbeitingu á vesturlenska vísu.
Algengasti undanfari krabbameins er þungbær missir eða tómleikatilfinning af einhverjum viðlíka orsökum.
Þegar salamandra missir útlim vex nýr í staðinn. Þegar maður verður fyrir tilfinningalegu áfalli sem ekki er unnið úr á réttan hátt, bregst líkaminn oft eins við og myndar nýjan vöxt. Það virðist vera svo að ef við getum vaxið að þroska við missi getum við líka með sama hætti komið í veg fyrir illkynja vöxt. Vísindamenn hafa komist að því að ef krabbamein er framkallað í fæti eða hala salamöndru og fóturinn eða halinn síðan tekinn af við æxlið, þá vex líka nýr hali og krabbameinsfrumurnar verða að eðlilegum frumum. Það er vitað að líkaminn reynir að lækna sumar tegundir krabbameins, t.d. nevróblastóm, með því að breyta á sama hátt sjúkum frumum í heilbrigðar jafnframt því að ráðast gegn þeim.
Þunglyndi felur í sér, samkvæmt skilgreiningu sálfræðinga, að missa tökin eða að gefast upp. Manneskju sem er þunglynd finnst núverandi aðstæður hennar og framtíðarhorfur óbærilegar og tilgangslítið að þurfa að lifa áfram við slíkar ömurlegar aðstæður. Hún "leggur árar í bát" , verður æ aðgerðalausari og missir áhugann á öðru fólki, vinnu, tómstundaiðju o.s.frv. Slíkt þunglyndi hefur verið skilgreint og flokkað sem ástand nátengt krabbameini. Mikilsmetinn læknir í Bandaríkjunum sýndi m.a. fram á það að þunglyndir karlmenn eiga helmingi fremur á hættu að fá krabbamein heldur en þeir sem eru ekki þunglyndir.
Margir sem skynja ástand sitt og vita í raun hvert stefnir breyta ekki lifnaðarháttum sínum í neinu og sýnast vera ánægðir út á við, en innra með sér finnst þeim hins vegar lífið orðið tilgangslaust og að litlu að keppa. Þetta fólk greinist sjaldan þunglynt vegna þess að því tekst að lifa eins og áður. Það lifir í "þögulli örvæntingu", hógvært og greiðvikið á yfirborðinu en yfirkomið af bældri heift, gremju og vonleysi undir niðri.
John nokkur Stanford við sálfræðideild Harwardháskóla rannsakaði sjúklinga með brjóstakrabbamein og tókst að sýna fram á að fólk "í varnarstöðu og með bældar tilfinningar" lifði skemur heldur en sjúklingar sem hafa raunsærri viðhorf. Þetta eru sjúklingarnir sem brosa og viðurkenna ekki örvæntingu sína, þeir sem segja: "Mér líður vel", jafnvel þótt maður viti að þeir séu með krabbamein, makar þeirra hafi sagt skilið við þá, börnin þeirra séu fíkniefnaneytendur og heimili þeirra brunnin til grunna.
John telur þessa hegðun koma ólagi á ónæmmiskerfið vegna þess að mótsagnakennd boðin trufli það. Af þessum sökum verður læknirinn að komast að því hvort um sé að ræða leikaraskap eða staðreynd þegar sjúklingur segir að honum eða henni líði vel. Það hlýtur að verða að fara varlega í sakirnar þegar sjúklingur segir að það sé ekki mikið álag að hafa krabbamein. Ástæðan getur verið sú að það sé lausn á aðsteðjandi vanda. Á hinn bóginn er líka hægt að standa andspænis sjúkdómnum af æðruleysi fremur en ótta og þá verður streitan hvetjandi fremur en skaðleg, hef ég lesið. Útkoman verður mismunandi og verður ekki túlkuð til fullnustu nema viðhorfin séu vandlega rannsökuð með sálfræðilegum aðferðum.
Ímyndunaraðferðir duga ekki fólki sem afneitar sjúkdómnum á þennan hátt, því að þá getur það í rauninni ekki tekið þátt í því að berjast á móti honum. Fólk í varnarsstöðu og með bældar tlfinningar dregur upp mynd af sjálfu sér gleiðbrosandi með sjúkdóminn í felum, eða opinberar líkama sinn með mynd af heilbrigðri manneskju sem það klippir út úr blaði.
Mestu skiptir góð þekking, einarður vilji og göfug hugsjón. Öflugur einstaklingur getur "lýst upp" með brennandi áhuga sínum svartnætti sem margur hefur þurft að búa við frá þeim stað í stríði veikinda sinna, þegar draumarnir og áformin stór og smá hættu að vera fyrirsjáanleg.
Gott er líka að fylgjast með og fá að vera vitni að því hvernig kraftar fólksins leysast úr læðingi hjá þeim sem eru að rísa upp af beði þunglyndis og uppgjafar, lætur sköpunarkraftinn og gleðina í verkunum og af samneytinu við náungann fleyta sér til bættra lífsgæða og betri heilsu í samfélagi við sína líka sem allir eru að glíma eða berjast við sama "fjandann".
Ekkert er krabbameinssjúklingi eins nauðsynlegt eða gefandi eins og að fá lifað í ást og kærleika maka síns, barna, barnabarna og náinna vina sem búa yfir gæsku og skilningi á góðvild, eru örlát á faðmlög, tíma og hlustun, eru laus við sjúklega sjálfsdýrkun og endalausa sókn í að svala eigingirndum og endalausri ásókn við framapot og svölun sýndarmennsku.
Læknisfræðin er ekki aðeins vísindi, heldur einnig listin að
láta einstaklingseðli okkar og einstaklingseðli sjúklingsins
orka hvort á annað.
Albert Schwitwer
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2007 | 21:05
Fátækt eða ríkidæmi?
Dag nokkurn tók mjög efnaður maður son sinn með sér í ferð út á land í þeim tilgangi að sýna honum hvernig fátækt fólk býr.
Þeir dvöldu tvo daga og nætur á sveitabýli sem myndi teljast fátæklegt.
Á leiðinni til baka spurði faðirinn son sinn hvernig honum hafi þótt ferðin.
"Hún var frábær Pabbi."
"Sástu hvernig fátækt fólk býr?" spurði faðirinn.
"Ó já," sagði sonurinn.
"Jæja, segðu mér, hvað lærðir þú af þessari ferð?" spurði faðirinn.
Sonurinn svaraði:
"Ég sá að við eigum bara einn hund en þau eiga fjóra.
Við eigum sundlaug sem nær útí miðjan garð en þau eiga læk sem engan enda tekur.
Við erum með innflutt ljósker í garðinum en þau hafa milljón stjörnur á næturnar.
Veröndin okkar nær alveg að framgarðinum en þau hafa allan sjóndeildarhringinn.
Við eigum smá blett til að búa á en þau eiga akra sem ná eins langt og augað eygir.
Við höfum þjónustufólk sem þjónar okkur en þau þjóna öðrum.
Við þurfum að kaupa okkar mat en þau rækta sinn.
Við erum með háa girðingu til að verja okkur en þau eru umkringd vinum sem verja þau. "
Faðir drengsins var orðlaus.
Þá bætti sonurinn við:
"Takk Pabbi, fyrir að sýna mér hve fátæk VIÐ erum."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)